Innlent

126 konur á leið upp Kvennadalshnjúk

Eiður Þór Árnason skrifar
Talið er að gangan muni taka fjórtán til sextán klukkustundir. 
Talið er að gangan muni taka fjórtán til sextán klukkustundir.  Aðsend

126 konur lögðu af stað í göngu upp á Hvannadalshnjúk á Öræfajökli klukkan 23 í kvöld til styrktar nýrri krabbameinsdeild á Landspítalanum.

Gerir hópurinn ráð fyrir að fyrstu konurnar muni toppa Kvennadalshnjúkinn, eins og þær kjósa að kalla hann, um sjöleytið í fyrramálið. 

Brynhildur Ólafsdóttir og Vilborg Arna Gissurardóttir eru leiðangursstjórar göngunnar en hópurinn skiptist niður á átján línur og er hver lína leidd af jöklaleiðsögukonu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum en uppistaðan í honum er útivistarhópur sem kallar sig Snjódrífurnar.

Hluti af vöskum hópi göngukvenna. aðsend

sögn Mbl.is eru Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Viðreisnar, Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra, Krist­ín Linda Árna­dótt­ir, aðstoðarfor­stjóri Lands­virkj­un­ar og Ásta Fjeldsted, fram­kvæmda­stjóri Krón­unn­ar, meðal þeirra sem eru með í för. 

Hópurinn er nú lagður af stað í fjórtán til sextán tíma göngu til að safna fyrir krabbameinsdeildinni og hvetur fólk til að styðja við söfnunina. 

Snjódrífurnar vöktu athygli þegar þær lögðu í 150 kílómetra ferðalag yfir Vatnajökul í fyrra til að styðja Styrktarfélagið Líf og Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Líkt og þá gengur hópurinn undir formerkjum félagasamtakanna og kalla hana Lífskraftsgöngu. Með söfnuninni vilja Snjódrífurnar halda áfram að styðja við skjólstæðinga félaganna tveggja.

Hægt að styðja söfnunina með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×