Lífið

On­lyFans ekki „easy mon­ey heldur vinna“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Frosti Logason skrifa
Klara Sif Magnúsdóttir er ein þeirra Íslendinga sem framleiðir erótískt efni á síðunni OnlyFans.
Klara Sif Magnúsdóttir er ein þeirra Íslendinga sem framleiðir erótískt efni á síðunni OnlyFans. Stöð 2

Undanfarið hefur mikið verið rætt um vefsíðuna Onlyfans.com hér á landi, en nokkrir ungir Íslendingar hafa stigið fram opinberlega og greint frá hvernig þeir hafi þénað milljónir á því að selja áskrifendum sínum erótískt eða jafnvel klámfengð heimatilbúið myndefni.

Málið þykir mjög umdeilt og hafa til dæmis Stígamót, samtök kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi, lýst yfir áhyggjum af þróuninni og sagt að um sé að ræða enn eina birtingarmynd þess að verið sé að selja aðgang að líkömum kvenna.

Klara Sif Magnúsdóttir, 23 ára kona frá Akureyri, hefur ekki farið leynt með að hún sé sjálf á OnlyFans en hún hefur meðal annars greint frá því að hún hafi grætt um 15 milljónir króna frá því hún byrjaði á síðunni í ágúst í fyrra. Rætt var við Klöru um OnlyFans í Íslandi í dag.

„Þetta byrjaði sem vettvangur þar sem þú getur búið til aðgang og verið með áskriftargjald í hverjum einasta mánuði. Þetta var hannað fyrir listamenn, söngvara, einkaþjálfara og alls konar svoleiðis. En fljótt fór fólk að selja myndir og myndbönd af sjálfu sér,“ segir Klara.

Var búin að hugsa um OnlyFans í heilt ár

Klara segir ekkert sérstakt hafa valdið því að hún fór að setja efni inn á OnlyFans.

„Ég var búin að hugsa um þetta alveg í heilt ár og síðan ákvað ég bara að láta verða af þessu. Að prófa þetta bara, sjá hvernig mér myndi ganga og hvað myndi gerast,“ segir Klara.

Klara framleiðir ýmist efni sem birtist fyrir alla áskrifendur eða sérútbúið efni fyrir einstaklinga.Stöð 2

Klara segir að til að byrja með hafi hún bara sett inn tiltölulega saklaus myndbönd af sér léttklæddri að dansa enda hafi hún bara ætlað að prófa sig áfram hægt og rólega. Hún segir að strax frá upphafi hafi hún fengið sterk viðbrögð og jákvæð viðbrögð, áskrifendur tóku að streyma inn og fljótlega upp úr því fór hún að framleiða erótískara efni.

„Þetta er aðallega bara „sóló-content“ frá mér. Ég er að setja inn á síðuna nektarmyndir en síðan er alltaf hægt að kaupa meira efni sem er þá í grófari kantinum, kannski með einhverjum öðrum jafnvel. Aðallega er þetta samt bara sóló hjá mér,“ segir Klara.

En fyrir þá sem þekkja þetta ekki, hvað ertu að gera sem er í grófari kantinum?

„Kynlíf,“ segir Klara.

Hún segir að yfirleitt sjáist „allt.“

„Sérstaklega ef að fólk biður um sérsniðið efni, ef einhver áskrifandi spyr: Ertu til í að gera þetta? Og ef það er eitthvað sem mér líður vel með að gera þá er það ekkert mál,“ segir Klara.

„Yfirleitt er þetta bara mjög „basic“ kynlífsathafnir. Þá kona og karlmaður eða stelpa og stelpa og jafnvel anal og svoleiðis. Það fer mjög eftir því hvað ég er tilbúin í að gera og hvað þeir vilja sjá,“ segir Klara.

Nokkurs konar brautryðjendur í klámiðnaðinum á Íslandi

Klara tekur það fram að hún er stjórnandinn á sinni síðu og hún geri þar ekkert sem hún er ekki hundrað prósent sátt við sjálf. Hún segir það vissulega hafa komið fyrir að áskrifendur hafi óskað eftir efni sem henni þykir óviðeigandi en þá fái þeir einfaldlega neitun og samskiptin halda svo áfram á jákvæðum nótum eftir það.

Aðspurð segir Klara það ekki hafa verið neitt stórmál að birta fyrstu nektarmyndirnar af sér á OnlyFans, hún hafi verið búin að hugsa sig vel um áður en það gerðist og ekkert af þessu hafi verið gert í einhverju hugsunarleysi eins og margir virðast halda. Klara segist sjálf alla tíð hafa verið mjög opin gagnvart klámi og erótík.

„Ég segi nú ekki að allir horfi á klám en það eru mjög margir sem horfa á klám og þar á meðal ég. Ég dæmi ekki neitt svona og þess vegna fannst mér þetta eitthvað auðvelt sem ég gæti gert. Af því að ég er bara þannig týpa, þetta er ekki fyrir alla,“ segir Klara.

Klara segir klárt að hún og aðrir íslenskir OnlyFanshöfundar séu brautryðjendur í klámiðnaði á Íslandi. Það sem henni þykir þó mikilvægast er að þau séu tilbúin til að tala um það opinberlega.

„Að fara út í umræður um þetta til að gefa fólki innsýn í hvernig þetta er fyrir okkur og reyna að útskýra til að vera ekki með þessa skömm sem fólk vill búa til.“

„Ég er minn eigin yfirmaður“

Og þótt Klara viðurkenni að fjárhagslegur ávinningur af þessari starfsemi geti verið mikill þá segir hún peninginn alls ekki vera einu ástæðuna fyrir því að hún sé á OnlyFans

„Þetta byrjaði með því að ég gæti eignast smá auka pening með vinnunni minni í gegnum þetta. en núna er ég ekki að gera þetta bara fyrir peningana, ég er líka að gera þetta því mér finnst þetta skemmtilegt. Ég er líka búin að kynnast mjög mörgu góðu fólki í gegn um þetta og þetta er bara vettvangur fyrir mig þar sem ég get fengið að vera ég. Það er enginn sem ræður því sem ég geri nema ég. Ég er minn eigin yfirmaður,“ segir Klara.

Í tilfelli Klöru kostar mánaðarleg áskrift að síðunni hennar 20 dollara eða um það bil 2500 krónur íslenskar. Klara ákveður sjálf verðið á áskriftinni en vefsíðan OnlyFans tekur síðan 20% af veltunni.

Í ofan á lag selur Klara síðan myndbönd til þeirra sem þess óska en verðin á þeim hafa að meðaltali verið um 30–60 dollarar.

Stefnir ekki á að hætta

Eins og fram hefur komið geta áskrifendur líka farið fram á sérstakar óskir en í þeim tilfellum er verðið samningsatriði á milli Klöru og kúnnans. Klara segist hafa haft um 150 áskrifendur í vetur en þegar umræðan um síðuna hennar fór af stað nú á dögunum bættust 300 nýir við þannig að Klara var með um það bil 450 áskrifendur þegar þetta viðtal var tekið í síðustu viku.

Hún segist ekki vera með neitt markmið þegar kemur að framleiðslunni, það er hve marga áskrifendur eða aura hún fái áður en hún hættir.

„Nei, ég ætla bara að gera þetta eins lengi og ég get, eins lengi og mig langar. Eins og staðan er núna er ég ekki að plana að hætta. Ég tek lítil skref í einu og vona alltaf það besta,“ segir Klara.

Og Klara segist njóta stuðnings fjölskyldu sinnar og vina við þetta eins og allt annað sem hún ákveður að taka sér fyrir hendur.

„Fyrst, áður en ég byrjaði, spurði ég mömmu hvað henni myndi finnast og hún sagði bara: Þetta er þitt líf, ég styð þig alltaf og elska þig alltaf. Ég átti líka kærasta á þeim tíma og hann sagði það sama. Ég póstaði þessu bara strax á instagramið mitt og fólk sem er í kring um mig og þekkir mig var spennt fyrir þessu,“ segir Klara.

„Ég vil útskýra þetta fyrir barninu mínu“

Klara segist ekki hafa áhyggjur af því að sjá eftir þessu í framtíðinni.

„Eins og ég sagði hugsaði ég um þetta alveg í heilt ár uppá það að geta hugsað hvort ég myndi sjá eftir þessu, hvað með framtíðarstörf, börn, allt þetta. Ég hugsaði um allt þetta. Þetta er eins og húðflúr, það er að eilífu alveg eins og þetta, maður verður bara að vera viss um sjálfan sig og standa með sjálfum sér,“ segir Klara.

Klara segist heldur ekki vera kvíðin yfir því að þurfa að útskýra OnlyFans eignist hún einhvern tíma barn. Eins og staðan sé í dag vilji hún ekki eignast börn en verði af því muni hún vilja fræða barnið sitt um málið.

„Ég myndi alltaf vilja vera manneskjan sem segir barninu mínu frá þessu áður en einhver annar. Þá gæti ég útskýrt hvernig þetta var fyrir mig og hvernig þetta var fyrir aðra sem ég þekki og fræða barnið mitt eins og ég get best. Það er held ég besta leiðin til að gera þetta þegar kemur að börnum.“

Átti erfitt með að horfa upp á neikvæða umræðu

Eins og fram hefur komið hefur skapast mikil umræða um OnlyFans á Íslandi og segir Klara það hafa verið á köflum nokkuð átakanlegt að sjá hvað fólk hafði um þetta að segja. Hún segist þó vera ánægð með að fólk sé að taka umræðuna og vonar hún að það eigi eftir að leiða til aukins skilnings á þessum iðnaði hér á landi sem víðar.

„Það var rosalega erfitt að horfa upp á þetta fyrst. Að sjá að allir væru að segja að þetta væri ógeðslegt og við ættum öll að skammast okkar. Þá hugsaði ég samt með mér: Af hverju? Því það er enginn sem ég þekki sem er að gera þetta óviljugur eða bara að gera þetta fyrir peninga, af því að þetta er ekki „easy money“ þetta er vinna,“ segir Klara.

„Auðvitað er þessi umræða mjög heit og ég skil að fólk er með misjafnar skoðanir. Auðvitað eru skuggahliðar á öllu og þetta er þannig séð klám en svo lengi sem einstaklingar eru hamingjusamir í því sem þeir eru að gera og eru ekki neyddir í neitt og gera allt á sínum forsendum sé ég ekki hvað er að þessu.“


Tengdar fréttir

Varð fyrir líkamsárás út frá vinnunni

Að minnsta kosti tuttugu íslenskar konur selja erótískt eða klámfengið myndefni af sér á samfélagsmiðlinum Only Fans sem hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.