Innlent

Tvö til þrjú hundruð manns mættir klukkan sjö í morgun

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum áætlar að tvö til þrjú hundruð manns hafi verið mættir á gossvæðið í morgun.
Lögreglan á Suðurnesjum áætlar að tvö til þrjú hundruð manns hafi verið mættir á gossvæðið í morgun. VÍSIR/EGILL

Áætlað er að tvö til þrjú hundruð manns hafi verið mættir á gossvæðið klukkan sjö í morgun. Reglubundnar rútuferðir frá Grindavík upp að stikuðu gönguleiðinni að gosinu í Geldingadölum hófust í morgun. 

Fyrsta ferðin var klukkan átta í morgun að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra Grindavíkur.

„Frá og með deginum í dag verður boðið upp á reglubundnar ferðir frá Grindavík og að stikuðu gönguleiðinni og til baka aftur. Það verður keyrt á heila og hálfa tímanum frá völdum bílastæðum hérna í Grindavík,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. 

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu Grindavíkurbæjar. Ferðirnar eru á vegum einkaaðila en skipulagðar í samráði við aðgerðastjórn viðbragðsaðila á svæðinu. Fannar segir að gætt sé að sóttvörnum og þá er grímuskylda í rútunum.

„Við teljum að þetta geti verið mjög góður viðbótarkostur fyrir fólk, að koma hingað og leggja bílunum sínum og taka rútuna að gosstöðvunum og aftur til baka,“ segir Fannar.

Hann segir að vel hafi gengið með rútuferðirnar það sem af er degi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er áætlað að tvö til þrjú hundruð manns hafi verið mættir á gossvæðið klukkan sjö í morgun. 

„Og svo er bara smám saman að bæta í umferðina. Þetta verður örugglega vinsælt, að skoða gosið um helgina,“ segir Fannar.

Hann bætir við að verslunareigendur í Grindavík finni vel fyrir auknum fjölda fólks í bænum. Til að mynda hefur verið nóg að gera í bakaríinu.

„Það hefur verið þannig og menn hafa sig alla við í að baka og það sama á við um verslunina hjá okkur þannig það er bara líflegt í bænum,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×