Innlent

Sjá ekki nein merki um gosóróa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísindamenn voru við mælingar á Reykjanesi á miðvikudag.
Vísindamenn voru við mælingar á Reykjanesi á miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Vísindamenn Veðurstofu Íslands sjá engin merki um gosóróa á Reykjanesi. Ekkert lát er hins vegar á jarðskjálftavirkni á svæðinu sem sést best á því að á innan við hálftíma nú í hádeginu urðu fimm mjög snarpir skjálftar sem allir áttu upptök sín um tvo kílómetra norður af Fagradalsfjalli.

Sá stærsti varð klukkan 12:06 og var hann 4,4 að stærð. Einn var 4,0 að stærð, tveir 3,4 og einn 3,6. Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir ekki nein merki um gosóróa heldur tengist jarðskjálftavirknin jarðskorpuhreyfingum á svæðinu.

Gervitunglamyndir sýna enda að hreyfingar hafa orðið á mörgum sprungum á Reykjanesinu í hrinunni undanfarna tvo sólarhringa.

Þá sé virknin bundin við sama svæði og verið hefur undanfarna daga, það er frá Kleifarvatni vestur að Þorbirni.

Virknin er þannig ekki að færa sig í austur að Brennisteinsfjöllum en vísindamenn hafa varað við að á því svæði geti orðið jarðskjálfti að 6,5 að stærð. Almenningur þurfi að búa sig undir þá sviðsmynd.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, sagði við fréttastofu rétt fyrir hádegi að innistæða væri fyrir skjálfta á milli Kleifarvatns og Bláfjalla sem gæti orðið allt að 6,5 að stærð.

„Við erum bara auðvitað að fylgjast áfram með þessari virkni og það vonandi bara dregur úr þessu og það gerist ekki neitt meira en við verðum auðvitað að vera vakandi fyrir þessu svæði milli Kleifarvatns og Bláfjalla að þar er hugsanlega innistæða fyrir stærri skjálfta,“ sagði Kristín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×