Innlent

Tillögur að tilslökunum ræddar í ríkisstjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fékk tvö minnisblöð frá sóttvarnalækni um helgina, annars vegar um skólastarf og hins vegar um tilslakanir á aðgerðum innanlands.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fékk tvö minnisblöð frá sóttvarnalækni um helgina, annars vegar um skólastarf og hins vegar um tilslakanir á aðgerðum innanlands. Vísir/Vilhelm

Fastlega er búist við því að tillögur Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, um tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum innanlands verði ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir hádegi í dag. Einnig má gera ráð fyrir að tillögur hans að tilhögun skólastarfs verði ræddar.

Þórólfur skilaði tveimur minnisblöðum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um helgina.

Annað minnisblaðið snýr að tillögum að afléttingum á innanlandsaðgerðum og hitt að skólastarfi þar sem núverandi reglugerð þar að lútandi fellur úr gildi 28. febrúar.

Hefur Þórólfur því lagt til að nýjar reglur um skólastarf taki gildi 1. mars. Tilslakanir innanlands gætu komið til framkvæmda um miðja þessa viku.

Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær gaf Þórólfur lítið upp varðandi hvaða afléttingar hann leggur til en sagði þó að í tillögum sínum væru tilslakanir í menntastofnunum og á skipulögðum menningarviðburðum. Þá væru einnig tillögur í minnisblaðinu sem snúa að áhorfendum á íþróttaviðburðum.

Líkt og áður í faraldrinum lagði Þórólfur áherslu á að fara yrði varlega í tilslakanir. Þannig þyrfti að fara sérstaklega varlega í afléttingar á krám þar sem þriðja bylgjan hefði byrjað þar.

Ef farið yrði í tilslakanir á starfsemi kráa nú yrðu þær hvað varlegastar. Þá sagði hann að grímuskyldan yrði áfram óbreytt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.