Innlent

Vill að forseti Alþingis og forsætisnefnd skoði orðræðu Helga Hrafns

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. vísir/Vilhelm

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, vill að forseti Alþingis og forsætisnefnd taki til skoðunar ummæli Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um Miðflokkinn.

Helgi Hrafn var harðorður í garð þingmanna Miðflokksins á Alþingi í gær í umræðu um málefni innflytjenda. Sagði hann meðal annars orðræðu þeirra líkjast fordómafullri orðræðu um samkynhneigða á tíunda áratug síðustu aldar og gyðingahatri.

Þorsteinn sagði orðræðuna ólíðandi. „Þar sem teiknuð var upp mynd af heilum þingflokki með lítið burstaskegg og allir greiddir til vinstri. Þetta er ekki líðandi og það er ekki líðandi að heill þingflokkur sé sakaður um tilburði sem nálgast gyðingahatur.“

„Þessa orðræðu þarf að stöðva núna og forsætisnefnd og forseti Alþingis þurfa að taka þetta mál á dagskrá og sjá til þess að svona orðræða sé ekki viðhöfð hér í þingsölum Alþingis,“ sagði Þorsteinn.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði að lokinni ræðu Þorsteins mikilvægt að allir gæti orða sinna. „Forseti gerir ekki athugasemdir við þessa ræðu og var þó nokkuð djúpt í árinni tekið þar gagnvart öðrum sem hér starfa á þessum vinnustað,“ sagði Steingrímur.

Stendur við orð sín

Helgi Hrafn svaraði ræðu Þorsteins og sagðist ekki sjá eftir neinu. „Ég tek það nærri mér sem þingmaður og lýðræðiðsinni að hér sé kallað eftir því að þagga niður í þingmönnum fyrir að gagnrýna Miðflokkinn. Ég valdi orð mín í gær af kostgæfni og nákvæmni. Ég stend við þau. Ég mun ítreka þau. Ég biðst ekki afsökunar og læt Miðflokkinn um að leiðrétta það sem honum finnst hafa farið úrskeiðis í gær.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.vísir/Vilhelm

Af orðum Steingríms að lokinni ræðu Helga Hrafns má ráða að hann hyggst ekki taka ummæli Helga Hrafns til nánari skoðunar. 

„Það er í valdi þess forseta sem fundi stýrir hverju sinni að leggja mat á orðfæri þingmanna og hvort það þurfi að gera athugasemdir við, en athafnir eða athafnaleysi forseta í slíkum tilvikum eru endanlegar og þeirri niðurstöðu verður ekki áfrýjað.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.