Innlent

Á von á að málum staðanna í mið­bænum ljúki með sekt

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Víða var fullbókað á veitingastöðum í miðborginni í gær, fyrstu helgina sem krár og skemmtistaðir fengu að taka úr lás eftir rúmlega fjögurra mánaða lokun. Tveir veitingastaðir eiga von á sekt vegna brota á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að talsvert af fólki hafi verið í miðbænum í gærkvöldi.

„Það var samt það gott ástand að þrátt fyrir að það hefði verið farið í eftirlit á 20 veitingastaði þá voru einungis gerðar athugasemdir við tvo þeirra þannig ég vil heilt yfir hrósa veitingamönnum fyrir að standa vaktina vel,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu.

Einn veitingastaður má búast við sekt fyrir brot á sóttvarnalögum annars vegar og brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hins vegar, þar sem veitingahald var ekki samkvæmt leyfi. Annar veitingastaður verður hugsanlega sektaður fyrir brot á sóttvarnalögum þar sem fjöldatakmarkanir voru ekki virtar.

Ásgeir á von á að málunum tveimur ljúki með sekt.

„Það er ekkert brot skráð þar sem skemmtistaðirnir voru of lengi opnir en fólk á að vera farið klukkan tíu. Þannig það er ekkert skráð þannig og ég get ekki betur séð en að miðborgin hafi verið komin í ró milli ellefu og tólf,“ segir Ásgeir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×