Innlent

Söguleg dagbókarfærsla ekki tilkynningarskyldur öryggisbrestur

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur áréttað þær reglur sem eru í gildi í samskiptum við fjölmiðla við þá sem starfsmenn embættisins sem sjá um gerð dagbókarfærslna sem sendar eru út á degi hverjum.

Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn fréttastofu vegna skoðunar lögreglu á dagbókarfærslu sem birt var á aðfangadegi í fyrra. Þar var sagt frá samkvæmi í Ásmundarsal sem lögregla leysti upp og að „háttvirtur ráðherra“ í ríkisstjórn hefði verið einn þeirra sem voru í sýningarsalnum.

Ráðherrann reyndist vera Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Lögregla sendi frá sér tilkynningu á öðrum degi jóla þar sem að það hefðu verið mistök að tilgreina ráðherra í tilkynningu til fjölmiðla á aðfangadegi.

Embættið lagðist í skoðun á hvort umrædd dagbókarfærsla teljist til öryggisbrests í skilningi persónuverndarlaga. Var það niðurstaða embættisins að ekki hafi verið tilefni til að líta svo á að um öryggisbrest hafi verið að ræða sem tilkynningarskyldur væri til Persónuverndar, þegar horft sé til eðlis upplýsinganna.

„Umfjöllunin gefi þó tilefni til að endurskoða og skýra betur það viðmið sem embættið setur varðandi miðlun að frumkvæði þess. Fyrir liggur að verklagsreglur embættisins um samskipti lögreglu við fjölmiðla verði uppfærðar og er sú vinna hafin,“ segir í svari embættisins við fyrirspurn fréttastofu.

Búið er að ræða við þá starfsmenn sem koma að gerð dagbókarfærslna og áréttað þær reglur sem í gildi eru varðandi fjölmiðlasamskipti með það að markmiði að tryggja að persónugreinanlegar upplýsingar fari ekki frá embættinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×