Innlent

Allir út í garð að telja fugla um helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þríeyki snjótittlinga með sýn í allar áttir.
Þríeyki snjótittlinga með sýn í allar áttir. Jóhann Óli Hilmarsson.

Fuglavinir eru hvattir til að fylgjast með öllum fuglum sem koma í garðinn þeirra um helgina og skrá niður tegundir og fjölda því Garðfuglahelgi Fuglaverndar stendur nú yfir. Stari og snjótittlingar eru algengastir í görðum landsmanna á þessum tíma árs.

Árlega Garðfuglahelgi Fuglaverndar hófst í gær og stendur fram til 1. febrúar. Þá eru fuglavinir hvattir til að skrá fugla sem líta við í garðinn í eina klukkustund og senda Fuglavernd talningartölurnar.

Guðrún Lára Pálmadóttir er verkefnisstjóri kynningar og náttúruverndarmála hjá Fuglavernd.

„Þetta er náttúrlega til gamans gert að einhverju leyti en líka er mikilvægt fyrir okkur að fá upplýsingar um hvaða fuglar halda hér til yfir veturinn og reiða sig á matargjafir frá mannfólkinu.“

Guðrún segir að fólk sé beðið um er að skrásetja í eina klukkustund, einhvern tímann yfir helgina eða á mánudaginn hvað margir fuglar mæta í garðinn og hvað tegundir það er.

Guðrún Lára Pálmadóttir, verkefnisstjóri kynningar og náttúruverndarmála hjá Fuglavernd.Aðsend

„Já, það er besta að gera það fyrir þá sem eru að gefa fuglunum út í garði hjá sér að fylgjast með garðinum í klukkutíma eftir að þeir gefa og telja alla fugla sem koma. Nýta sér garðinn, telja þá fugla, sem setjast í tré eða á jörðina en ekki telja þá sem fljúga yfir,“ segir Guðrún Lára.

Síðan er farið inn á heimasíðu Fuglaverndar þar sem rafrænt eyðublað er fyllt út samviskusamlega úr fuglatalningunni og sent í kjölfarið á Fuglavernd.

En hvaða garðfuglar eru algengastir í görðum landsmanna yfir veturinn?

„Starinn hefur vinninginn og er vinsælastur en þar strax á eftir koma snjótittlingarnir.“

Eyðublaðið með upplýsingunum úr talningunni eru á heimasíðu Fuglaverndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×