Innlent

Lands­björg aug­lýsir út­boð á þremur nýjum björgunar­skipum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vörður II á Patreksfirði, eitt af þrettán björgunarskipum Landsbjargar.
Vörður II á Patreksfirði, eitt af þrettán björgunarskipum Landsbjargar. Landsbjörg

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur auglýst útboð á þremur nýjum björgunarskipum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að útboðið sé stærsta einstaka fjármögnunarverkefni sem Landsbjörg hefur ráðist í en fyrirhugað er að skipin verði tekin í notkun fyrir árslok 2023.

Björgunarskipin koma í stað eldri skipa Landsbjargar. Félagið á þrettán björgunarskip og eru þau flest komin vel til ára sinna. Elsta skipið var smíðað árið 1978.

„Björgunarskip Landsbjargar eru mikilvægur hlekkur í þéttu öryggisneti björgunarsveitanna. Þau eru mönnuð sjálfboðaliðum og sinna að jafnaði á bilinu 70 til 110 útköllum árlega.

Útboðið er fyrsti áfanginn í endurnýjun skipanna. Það er haldið á grundvelli samkomulags við dómsmálaráðuneytið um að ríkið fjármagni hluta verkefnisins en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, auk dómsmálaráðherra rituðu nýlega undir viljayfirlýsingu um endurnýjun flotans næstu tíu árin,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur undirbúningur þess staðið yfir frá miðju síðasta ári. Gert er ráð fyrir að smíði á fyrsta skipinu hefjist fyrir haustið.

„Landsbjörg hefur með dyggri aðstoð Ríkiskaupa og vinnuhóps ráðuneyta sniðið útboðslýsinguna að hlutverki skipanna. Að verkinu hefur einnig komið nýsmíðanefnd björgunarskipa frá Landsbjörgu en í henni eiga sæti reynslumiklir sjálfboðaliðar úr áhöfnum björgunarskipa Landsbjargar,“ segir í tilkynningu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.