Innlent

„Í vikulokin ætti að hafa bætt vel í snjóinn norðan- og austanlands“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það ætti að vera hægt að skella sér á skíði fyrir norðan og austan í þessari viku.
Það ætti að vera hægt að skella sér á skíði fyrir norðan og austan í þessari viku. Vísir/Vilhelm

Í dag og á morgun er útlit fyrir norðlæga átt á landinu með strekkingi eða allhvössum vindi víða, jafnvel hvassari á stöku stað í vindstrengjum við fjöll að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Búast má við slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu í dag en þurrt verður syðra. Hiti í kringum frostmark.

Á morgun er svo spáð kólnandi veðri og frosti allt að sex stigum. Útlit er fyrir él norðan- og austanlands og jafnvel viðameiri bakka innan um með samfelldari snjókomu. Sunnan heiða verður áfram þurrt þótt ský verði á himni.

„Síðan eru áfram horfur á norðanátt út vikuna með frosti um allt land. Veturinn hefur verið snjóléttur hingað til, en í vikulokin ætti að hafa bætt vel í snjóinn norðan- og austanlands og lyftist þá væntanlega brúnin á aðdáendum vetraríþrótta á þeim slóðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Norðan og norðaustan 10-18 m/s, en hvassara á stöku stað í vindstrengjum við fjöll. Slydda eða snjókoma með köflum á norðanverðu landinu, en þurrt syðra. Hiti kringum frostmark. Él eða snjókoma norðan- og austanlands á morgun, en áfram þurrt sunnan heiða, frost 0 til 6 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðanátt, víða 10-15 m/s, en sums staðar hvassara í vindstengjum við fjöll. Léttskýjað á sunnaverðu landinu, en él í öðrum landshlutum. Frost 1 til 7 stig.

Á föstudag og laugardag:

Ákveðin norðanátt og snjókoma eða él, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag og mánudag:

Norðaustanátt og dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Áfram frost um allt land.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.