Innlent

Rýmdu frystihús og sigldu með fólk í bæinn í öryggisskyni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stóra skriðan á Seyðisfirði sem féll þann 18. desember, fyrir miðri mynd sem tekin var í morgun.
Stóra skriðan á Seyðisfirði sem féll þann 18. desember, fyrir miðri mynd sem tekin var í morgun. Almannavarnir

Lögreglan á Austfjörðum ákvað að láta rýma hús á vinnusvæði nærri þeim stað þar sem stór skriða féll á Seyðisfirði í desember. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ábendingar hafi borist klukkan hálf tólf í morgun um að sprunga sem myndaðist í fyrrnefndri skriðu 18. desember hefði hugsanlega gliðnað. Vinnusvæði þar fyrir neðan hefði í kjölfarið verið rýmt og því lokað.

Samkvæmt gögnum Veðurstofu er þó ekki að sjá hreyfingu á svæðinu en það er til frekari skoðunar og starfsmenn Veðurstofu á vettvangi.

„Vonir standa til að niðurstöður liggi fyrir fljótlega. Allar ábendingar af þessum toga eru teknar alvarlega,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Frá Seyðisfirði í morgun. Vinnusvæðið má sjá í yst í firðinum.Almannavarnir

Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, segir í samtali við Austurfrétt ekki ljóst hvort hætta sé á ferðum en engin áhætta verði tekin. Frystihús og fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar voru á meðal bygginga sem voru rýmdar þótt byggingarnar væru utan áhrifasvæðis. Starfsfólk fékk far með togaranum Gullver inn í bæinn.

Rigningar var í nótt og er sömuleiðis von á töluverðu regni á laugardag.

Skriðurnar eins og þær blöstu við í morgun.Almannavarnir

„Það hefur verið fundað um hana á vegum almannavarna. Þegar spáin skýrist betur á morgun verður fundað aftur og tekin ákvörðun um næstu skref, meðal annars hvort gripið verði til rýminga,“ segir Jens í samtali við Austurfrétt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.