Innlent

Of margir í messu í Landakotskirkju í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Landakotskirkja.
Landakotskirkja. Vísir/Sigurjón

Allt of margir voru komnir saman til messu í Landakotskirkju á öðrum tímanum í dag og mætti lögreglan á staðinn og ræddi við sóknarprest. Rúv greinir frá.

Málið ku vera til rannsóknar hjá lögreglu en að því er Rúv greinir frá var fjöldi kirkjugesta langt yfir leyfilegum hámarksfjölda miðað við gildandi fjöldatakmarkanir. Rúv birtir myndskeið með frétt sinni þar sem glögglega má sjá hve margir eru saman komnir í kirkjunni og sést lögregluþjónn telja hausa í kirkjunni á meðan athöfnin stendur yfir.

Líkt og fram kom í fjölmiðlum á jóladag hafði lögreglan einnig afskipti af helgihaldi í kirkjunni á aðfangadag þar sem of margir voru saman komnir til að sækja jólamessu.

Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og upplýsingafulltrúi, sagði í samtali við fréttastofu á jóladag að mögulega hafi presturinn sem messaði í kirkjunni á aðfangadagskvöld ekki áttað sig nægilega vel á gildandi sóttvarnareglum. Um pólska messu hafi verið að ræða og taldi lögregla hátt í annað hundrað manns þegar hún mætti á svæðið.

Fréttastofa hefur hvorki náð sambandi við lögreglu né talsmenn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×