Lífið

Fór hundrað ferðir á Esjuna árið 2020: „Þetta er auðvitað galið“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björn hefur látið gera sérstakan fjallgöngujakka fyrir sig sem á stendur „100 Esjur 2020.“
Björn hefur látið gera sérstakan fjallgöngujakka fyrir sig sem á stendur „100 Esjur 2020.“ Aðsend/Björn

Björn Kristján Arnarson, viðskiptafræðingur og fjallgöngumaður, gekk hundrað sinnum upp á Esjuna á liðnu ári. Björn segir að hann hafi sett sér það áramótaheit á síðasta ári að ganga fjörutíu og fimm sinnum upp á fjallið fyrir 45 ára afmælisdaginn sinn í sumar en svo hafi markmiðið undið upp á sig.

„Í fyrra varð ég 45 ára og fyrsta markmiðið var að ég myndi taka 45. ferðina mína á 45. afmælisdaginn minn í júlí,“ segir Björn.

Hann segir að árið hafi byrjað brösuglega. Fyrstu þrír mánuðir ársins 2020 hafi einkennst af vondu veðri og lítið göngufæri hafi verið á þeim tíma. Gönguferðirnar hafi því verið orðnar ansi tíðar þegar leið á vorið áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

„Síðan kom Covid, það er kannski eitt af því sem maður getur tekið jákvætt út úr því að þá lokaði líkamsræktin. Þannig að þá hugsaði ég að það væri verið að sýna mér að ég ætti bara að klára þetta,“ segir Björn, en í venjulegu árferði æfir hann Boot Camp, sem brást þegar líkamsræktarstöðvar lokuðu.

Aðsend/Björn

Fór 45. ferðina á 45 ára afmælisdaginn

„Ég fór mjög margar ferðir þarna í apríl, maí og júní. Ég fór nokkrum sinnum tvær ferðir og meira að segja fór ég einu sinni þrjár ferðir í einu. Síðan náði ég þessari 45. Esju á afmælisdaginn minn sem var mjög gaman. Þá var markmiðinu náð,“ segir Björn.

Markmiðið hafi þó, að hans sögn, breyst þegar haustaði og líkamsræktarstöðvum var skellt aftur í lás.

„Þá beit ég það í mig að ég þyrfti að uppfæra þetta markmið. Ég fer bara í hundrað,“ segir Björn.

Björn fór þó ekki í allar ferðirnar einn. Reglulega tók hann hundinn sinn með sér og svo slóst fjöldi fólks í för með honum yfir árið.

Hann segir ferðirnar allar hafa verið ólíkar. Hann hafi gengið í mismunandi veðri og aðstæðum og á ýmsum tíma dags. Hann gekk meðal annars með hópi sem kallar sig 545, sem leggur af stað upp á Esjuna klukkan korter í sex á morgnanna.

„Það eru nokkrir rugludallar sem að fara mjög snemma og við erum þá mætt í Esjuna klukkan 5:45. Einu sinni þurfti einhver að vera aðeins fyrr á ferðinni og við vorum held ég komin í Esjuna korter yfir fimm. Það var bara enn um nótt,“ segir Björn.

Björn fór á Esjuna á ýmsum tímum dags og náði því stórkostlegum myndum, t.d. af stjörnubjörtum himni.Aðsend/Björn

„Svo hef ég farið um morguninn, í hádeginu og á öllum tíma dags. Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp, sólina fara niður. Það er alveg magnað að hafa þetta fjall í borgarjaðrinum. Þetta er þrælerfitt fjall að fara og er frábær líkamsrækt.“

Markmiðið virtist galið í fyrstu

Björn segir að þegar snjó var farið að leysa og fjallið var orðið vel fært hafi hann farið að huga að tímanum sem það tók hann að fara upp og niður. Besti tíminn sem hann náði hafi verið á 45 ára afmælisdaginn, en þá stefndi hann á að komast upp og niður Esjuna á 45 mínútum.

„Ég ætlaði að reyna að ná, á 45. deginum mínum, afmælisdeginum, 45 mínútum upp og niður. En ég náði 49 mínútum. Það er besti tíminn minn. Á þessu ári verð ég 46 þannig að kannski stefni ég á 46 mínútur,“ segir Björn.

Björn segist ekki alltaf hafa verið bjartsýnn á að hann næði að ganga hundrað sinnum á fjallið á árinu, því „þetta er auðvitað galið.“ Þegar líða fór á veturinn fór markmiðið þó að virðast ekki svo fjarlægt og „piece of cake.“

Hann segist hafa kryddað upp á ferðirnar með ýmsum hætti á árinu, til dæmis með því að fara oftar en einu sinni upp á fjallið á dag, nota þyngingarvesti og háfjallagrímu. Ein ferð sé þó eftirminnilegust, en þá fór hann ásamt systurdóttur sinni upp fjallið, og þau tóku tíu armbeygjur eftir hverja hundrað metra sem þau gengu.

Björn tók iðulega hundinn sinn með í göngurnar.Aðsend/Björn

„Þegar maður segir það hljómar það bara krúttlega. En á endanum eru þetta sex þúsund metrar. Þannig að við endum á því að taka sex hundruð armbeygjur þessa ferðina,“ segir Björn.

Ferðirnar samsvara átta ferðum á Everest

„Eins einhæft og þetta hljómar, að fara upp og niður Esjuna og klukka Steininn, þá er rosalegur fjölbreytileiki í þessu. Kannski að labba einhvern annan stíg, allt í einu þegar snjórinn fór sá maður nýja læki og fossa. Stundum var ég einn, stundum var ég með hundinn, stundum tveir og fleiri. Fjölbreytileikinn í þessu hefur verið ótrúlega skemmtilegur,“ segir Björn.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem Björn setur sér áramótaheit sem reyna á þolið. Hann segist reyna að setja sér áramótaheit á hverju ári fyrir heilsuna. Hann hafi hlaupið maraþon, farið í Spartan-keppnir í Boot Camp-inu og fleira.

„En þetta ár lá ekkert fyrir og ég þurfti að hafa eitthvað. Þannig að ég ákvað að ganga 45 sinnum á Esjuna. Þannig byrjaði þetta og svo breyttist þetta með haustinu,“ segir Björn.

Björn er hér með svokallaða háfjallagrímu, sem er til þess fallin að minnka súrefnisflæði og þjálfa þannig lungun til göngu í háum hæðum.Aðsend/Björn

Hann segist ekki ætla að halda markmiðinu áfram fyrir þetta árið. Hann muni þó ekki hætta að fara á Esjuna, þrátt fyrir að hafa gengið hana meira en hundrað sinnum.

„En nú er ég kominn með smá fjalla- og utanvegabakteríu þannig að kannski fer maður að líta betur í kring um sig í nágrenninu. Kíkja betur á allt sem er í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Suðurnesjunum. Maður hefur verið svolítið einhæfur að fara bara á Esjuna,“ segir Björn.

Björn segir að hann hafi notað forritið Strava til að fylgjast með og kortleggja ferðirnar. Í ljós hafi komið að ferðirnar samsvari um átta ferðum upp á Everest, hæsta fjall heims.

„Ég fór yfir 70 þúsund hæðametra, uppsöfnuð hækkun yfir árið samsvarar átta Everest-fjöllum. Og þetta eru tæplega 700 kílómetrar af Esjugöngu yfir árið,“ segir Björn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×