Innlent

Allt að átta milljóna munur á verðmati

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Ásett verð íbúðar getur haft afgerandi áhrif á endanlegt söluverð hennar. Í nýrri íslenskri rannsókn voru fasteignasalar beðnir um að meta sömu íbúðina og var allt að átta milljóna munur á mati þeirra.

Fasteignamarkaðurinn á Íslandi hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar frá því fyrir hrun, eignum hefur fækkað og verð lækkað en það sem margir vita ekki er að fjöldi eigna sem auglýstar eru án verðs fjölgar mikið í efnahagsþrengingum og tvöfaldaðist frá árinu 2008 til ársins 2009 en hefur nú aftur fækkað.

"Það er vegna þess að seljandinn er hræddur um að yfirskjóta eða undirskjóta, nefna of hátt verð og lækka sig eða nefna lægra verð en kaupandinn er tilbúinn að borga," segir Aðalsteinn Leifsson, lektor í viðskiptafræði við HR.

Þetta kemur fram í nýlegri BS ritgerð sem Þorgeir Símonarson nemandi við viðskiptafræðideild HR vann í samvinnu við Aðalstein. Á meðal þess sem þeir rannsökuðu var hvaða áhrif ásett verð hefur á verðmat eignar.

"Þegar við fengum bæði leikmenn og fasteignasala til að verðmeta eignir þá gátum við haft gríðarleg áhrif á verðmati þeirra út frá því verði sem við nefndum sem viðmiðunarverð og reyndar höfum við ennþá meiri áhrif á fagmenn en leikmennina," segir Aðalsteinn.

Hann segir því ásett verð hafa meiri áhrif en nokkuð annað á hvaða verð getur fengist fyrir íbúð en í rannsókninni var allt að átta milljóna munur á verðmati fasteignasalanna þrátt fyrir að hátt í 98 prósent þeirra sögðu ásett verð engin áhrif hafa á þeirra verðmat . Aðalsteinn segir því mikilvægt að vera vel undirbúinn og ekki hræddur við að bjóða lægra verð.

"Þetta segir okkur líka það, að þegar þú ert að selja þína fasteign þá borgar sig að fá verðmat frá fleira en einum aðila og nefna alls ekki verðmatið frá fyrsta aðilanum þegar þú færð annan eða þriðja til að verðmeta eignina þína. Og síðan ef eignin er auglýst án þess að gefa upp verð, að skoða hug þinn vel, koma inn með bratt verð og reyna að nefna sanngirnis rök fyrir því verði sem þú setur fram," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×