Erlent

Úkraína biður FBI um aðstoð við rannsókn á tölvuinnbroti

Kjartan Kjartansson skrifar
Skrifstofur félags Burisma í Kænugarði. Trump forseti sóttist eftir rannsókn sem gæti skaðað pólitískan keppinaut hans. Rússneskir hakkarar eru taldir hafa brotist inn í tölvukerfi fyrirtækisins.
Skrifstofur félags Burisma í Kænugarði. Trump forseti sóttist eftir rannsókn sem gæti skaðað pólitískan keppinaut hans. Rússneskir hakkarar eru taldir hafa brotist inn í tölvukerfi fyrirtækisins. Vísir/EPA

Yfirvöld í Úkraínu hafa óskað eftir því við bandarísku alríkislögregluna FBI að hún aðstoði við rannsókn á innbroti í tölvukerfi gasfyrirtækisins Burisma sem talið er að rússneskir hakkarar hafi staðið fyrir. Burisma er í hringiðu rannsóknar á mögulegum embættisbrotum Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Bandarískt tölvuöryggisfyrirtæki greindi frá því í vikunni að umfangsmiklum vefveiðum (e. Phishing) hafi verið beint gegn Burisma frá því í byrjun nóvember þegar rannsókn á þrýstingsherferð Trump forseta og bandamanna hans gegn úkraínskum stjórnvöldum komst í hámæli. Fyrirtækið telur að hakkarar á vegum leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) hafi verið á ferð og að þeir hafi komist yfir upplýsingar frá Burisma. Ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar þeir komust yfir eða eftir hverju þeir sóttust.

Trump þrýsti ítrekað á Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, um að rannsaka Burisma og Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og mögulegan mótframbjóðanda Trump í forsetakosningum á þessu ári. Hann er sakaður um að hafa notað hundruð milljóna dollara hernaðaraðstoð og fund í Hvíta húsinu sem úkraínsk stjórnvöld sóttust eftir til að þvinga þau til að hefja rannsókn á Biden og Burisma.

Reuters-fréttastofan segir að Artjom Minjaíló, innanríkisráðherra Úkraínu, hafi greint frá því að óskað hafi verið eftir liðsinni FBI við rannsóknina á tölvuinnbrotinu. Líklegt sé að rússnesk sérsveit hafi átt þátt í innbrotinu.

Sami hópur tölvuþrjóta, sem hefur verið nefndur „Fínibjörn“ [e. Fancy Bear], braust inn í tölvupósta landsnefndar Demókrataflokksins og framboðs Hillary Clinton fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Póstunum láku hakkararnir svo í gengum Wikileaks í aðdraganda kosninganna. Bandaríska leyniþjónustan komst að þeirri niðurstöðu að innbrotið hefði verið liður í afskiptum rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum en markmið þeirra var að hjálpa Trump til sigurs.

Marie Yovanovitch var skyndilega kölluð heim sem sendiherra í apríl í kjölfar ófrægingarherferðar lögmanns Trump gegn henni.AP/J. Scott Applewhite

Rannsaka mögulegar njósnir um sendiherra Bandaríkjanna

Á sama tíma tilkynnti Minjaíló einnig að rannsókn væri hafin á mögulegu ólöglegu eftirliti með Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Kænugarði. Í gögnum sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings birti í vikunni var að finna skilaboð á milli þingframbjóðanda repúblikana og Lev Parnas, samverkamanns Rudy Giuliani, persónulegs lögmanns Trump forseta, þar sem fullyrt var að fylgst væri með Yovanovitch í Úkraínu.

Yovanovitch var sendiherra þar til í apríl í fyrra þegar Trump forseti lét kalla hana heim í skyndi. Brottrekstur hennar kom í kjölfar ófrægingarherferðar sem Giuliani stóð fyrir gegn henni og embættismenn lýstu við rannsókn Bandaríkjaþings á þrýstingsherferð Trump gegn Úkraínu. Parnas og Giuliani voru meðal annars í sambandi við úkraínskan saksóknara sem vildi að þeir boluðu Yovanovitch í burtu í skiptum fyrir upplýsingar sem kæmu Biden illa. Yovanovitch hafði verið gagnrýnin á störf saksóknarans sem hún taldi ekki standa sig í að uppræta spillingu.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekkert tjáð sig um fullyrðingarnar um að fylgst hafi verið með Yovanovitch. Robert F. Hyde, frambjóðandi repúblikana í Connecticut, sem sagði að fylgst væri með sendiherranum, neitaði því algerlega í sjónvarpsviðtali í gær og hélt því fram að hann hefði verið að grínast þegar hann sagði Parnas það.

Washington Post greindi frá því í dag að Hyde hefði verið lagður inn á geðdeild gegn vilja sínum eftir uppákomu í golfklúbbi Trump forseta í Doral á Flórída í maí í fyrra. Í lögregluskýrslu kom fram að Hyde hefði sagst telja að launmorðingi væri á hælum hans. Hann teldi sig mögulega í lífshættu vegna tölvupósta sem hann hafði sent. Óttaðist hann að málarar og garðyrkjumenn vildu skaða hann og að leyniþjónustan fylgdist með honum. Hyde var í kjölfarið lagður inn á geðdeild gegn vilja sínum á grundvelli laga í Flórída sem heimila slíkt í tilfelli geðsjúkdóma eða lyfjamisnotkunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×