Lífið

Orðinn atvinnumaður í fitness og vaxtarrækt

Kristján í hrikalegu formi.
Kristján í hrikalegu formi.
Kristján glímir í augnablikinu við axlarmeiðsl en vonast til að geta keppt í fitness í ágúst á næsta ári.
"Það er vissulega heiður að vera boðið af heimssambandi að gerast atvinnumaður í vaxtarrækt og fitness," segir Kristján Samúelsson, betur þekktur sem Kiddi Sam, sem skrifaði nýlega undir samning hjá WBFF (World Bodybuilding & Fitness Federation).

Þá mun hann keppa um peningaverðlaun en kveðst samt ekki verða ríkur af tiltækinu. "Aðalspenningurinn er að prófa eitthvað nýtt," segir hann.

Kristján er 32 ára og hefur náð lengst allra Íslendinga í fitness. Hann vann Íslandsmeistaramótið í fitness 2004, danska meistaramótið og sænska Grand Prix mótið 2006, Norðurlandamótið vann hann með yfirburðum 2008 og varð sama ár í 7. sæti heimsmeistaramótsins.

Hingað til hefur hann keppt innan IFBB (International Federation of Bodybuilders) en segir þar engan atvinnumannaflokk nú í Classic Bodybuilding, sem hann keppti í. Tekur þó fram að hann hafi haft unun af að keppa fyrir IFBB og kveðst alltaf munu meta það sem IFBB á Íslandi hafi gert fyrir hann. "En núna er kominn tími á ný ævintýri," segir hann.

Kristján býr í Malmö í Svíþjóð og starfar sem sölumaður fæðubótaefna en þegar viðtalið fer fram er hann heima yfir ungum syni með hlaupabólu. Þess má geta að Kristján og Björn Þór Sigurbjörnsson (Bjöddi) eru líka að endurvekja og betrumbæta vefsíðuna body.is með kennsluæfingum, ráðleggingum um mataræði og öðrum fróðleik.

"Ég er í smá tjóni núna með aðra öxlina en vonast til að fá hana uppskorna á næstunni. Hún er búin að vera mér erfið í rúmt ár og ég er búinn að prófa allt til að bæta hana," segir Kristján. "En ég ætla mér að keppa í fitness í ágúst á næsta ári í Toronto í Kanada og mæta þar í mínu besta formi."

gun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.