Innlent

Fjölmörg atriði standa enn út af borðinu

Fjölmörg atriði standa enn út af borðinu í viðræðum um Icesave málið en samninganefnd íslenskra stjórnvalda fundaði fyrir helgi með þeim bresku og hollensku um framhald viðræðna. Stjórnarandstöðunni er haldið upplýstri um gang mála.

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sendi í lok maí áminningarbréf til íslenskra stjórnvalda þar sem fram kom að Ísland væri skuldbundið til að greiða lágmarkstryggingu á Icesave reikningum Landsbankans.

Stjórnvöld fengu tveggja mánaða frest til að svara áminningarbréfinu og rennur fresturinn því út í lok þessa mánaðar. Fallist ESA ekki á rök Íslands í málinu eða telur svarið ekki fullnægjandi gæti málið endað fyrir EFTA dómstólnum. Fjármálaráðherra hefur sagt að stjórnvöld muni taka til varna vegna áminningar ESA. Vænlegast sé þó að ljúka Icesave málinu við samningaborðið, að því gefnu að ásættanleg niðurstaða fáist - ákveðin áhætta felist í því ef málið fer fyrir EFTA dómstólinn.

Viðræður við Breta og Hollendinga um lausn málsins eru nýhafnar eftir langt hlé en samninganefnd Íslands fundaði með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í Reykjavík fyrir helgi. Umræddir fundir voru fyrst og fremst til að skiptast á upplýsingum og undirbúa frekari viðræður. Samkvæmt heimildum fréttastofu standa enn fjölmörg atriði út af í viðræðunum. Búist er við því að fjármálaráðherra upplýsi stjórnarandstöðuna um gang mála í Icesave málinu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×