Innlent

Læknar segja hættu­á­stand vera orðið daglegur veruleiki á Land­spítala

Eiður Þór Árnason skrifar
Félögin segjast jafnframt bjóða fram krafta sína og sérþekkingu til að hjálpa til við lausn þessa vanda.
Félögin segjast jafnframt bjóða fram krafta sína og sérþekkingu til að hjálpa til við lausn þessa vanda. Vísir/Vilhelm

Félag sjúkrahúslækna og Félag almennra lækna segja að hættuástand sé „fyrir löngu daglegur veruleiki á deildum [Land]spítalans.“ Þetta kemur fram í harðorðri ályktun sem samþykkt var á fjölmennum fundi félagana í gær.

Þar er lýst yfir þungum áhyggjum af „viðvarandi óviðunandi og stöðugt versnandi ástandi á Landspítala.“ Fjöldi bráðveikra einstaklinga er sagður vera í óviðunandi aðstæðum á stofu með fjölda annarra og á göngum spítalans jafnvel dögum saman.

„Ástand þetta er fullkomlega óboðlegt frá öllum hliðum séð og hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggi sjúklinga, spillir möguleikum á eðlilegri faglegri þjónustu starfsfólks og truflar skilvirkni starfseminnar.“

Í ályktuninni segir jafnframt að ástandið geri starfsfólki spítalans ókleift að sinna kennslu og vísindastarfi.

„Skorað er á stjórnvöld, yfirstjórn sjúkrahússins og Embætti Landlæknis að axla ábyrgð á ástandinu og án tafar taka höndum saman við starfsfólk til að finna viðunandi lausn til skemmri og lengri tíma,“ segir að lokum í ályktun félaganna.

Í gær sendi stjórn læknaráðs Landspítala frá sér ályktun þar sem athygli er vakin á erfiðum aðstæðum á bráðamóttöku Landspítalans er varðar álag, plássleysi, mönnun og sýkingavarnir.

Sú ályktun kom í kjölfar þess að yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum sagði í síðustu viku að stórslys væri í uppsiglingu á bráðamóttökunni bregðist stjórnvöld ekki við.


Tengdar fréttir

Yfirlæknir óttast stórslys á bráðamóttöku Landspítalans

Yfirlæknir smitsjúkdómalækninga hjá Landspítalanum segir að stórslys sé í uppsiglingu á bráðamóttöku spítalans verði ekkert að gert. Fjöldi inniliggjandi sjúklinga hafi þrefaldast á tveimur árum og mikill þrýstingur sé að útskrifa sjúklinga.

Vaktstjórar segja neyðarástand ríkja á bráðamóttökunni

Vaktstjórar hjúkrunar á vráðamóttöku Landspítalanum hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að neyðarástand ríki á bráðamóttökunni. Vaktstjórarnir sjá sig knúin til þess að lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af ástandi deildarinnari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×