Innlent

Skátar fresta mótum í sumar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kort af fyrirhugðu mótssvæði Landsmóts skáta í sumar.
Kort af fyrirhugðu mótssvæði Landsmóts skáta í sumar. bís

Landsmóti skáta, sem fram átti að fara að Hömrum á Akureyri í sumar, hefur verið frestað um ár. Stefnt verður að því að halda mótið á sama stað sumarið 2021.

Frá þessu greinir stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) í orðsendingu til félagsmanna sinna. Þar er ákvörðunin rakin til „aðstæðna í samfélaginu“ sem sett hafi strik í reikninginn. Ætla má að vísað sé til kórónuveirunnar og meðfylgjandi samkomubanns.

Ætlunin var að mótið færi fram dagana 8. til 14. júlí, að Hömrum á Akureyri sem fyrr segir. Mikil vinna búa að baki mótinu að sögn stjórnar BÍS og því hafi ákvörðunin verið erfið - en um leið rétt að þeirra mati.

„Óvissuþættirnir eru of margir til að geta réttlætt þessa framkvæmd í sumar,“ segir stjórn BÍS. Í því samhengi má nefna að sóttvarnalæknir hefur lagt til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki tvö þúsund manns, að minnsta kosti út ágúst. „Það er mikilvægt að við stöndum saman og vinnum okkur í gegnum þessa veiru,“ segir stjórn BÍS ennfremur.

Að sama skapi hefur stjórnin frestað fyrirhuguðu Drekaskátamóti sem fram átti að fara við Úlfljótsvatn helgina 6. til 7. júní. Stefnt er að því að mótið fari fram í júnímánuði árið 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×