Tónlistarkonan Ólöf Arnalds er þessa dagana að kynna sína fjórðu sólóplötu, Palme, sem kemur út í Bretlandi í dag á vegum útgáfufyrirtækisins One Little Indian.
Platan hefur að geyma átta lög og var myndband við fyrsta smáskífulagið, Patience, frumsýnt á miðvikudag. Framundan hjá henni eru átta tónleikar á Bretlandseyjum, þar á meðal í London, Manchester, Liverpool og Glasgow.
Einnig spilar hún næsta miðvikudagskvöld, ásamt Emilíönu Torrini og John Grant, á árlegri menningarhátíð sem er haldin í Árósum í Danmörku. Hátíðin hefst í dag og stendur yfir í tíu daga. Hún er á meðal þeirra stærstu í Skandinavíu en fyrsta hátíðin var haldin árið 1965.
