Innlent

Sá frekar fyrir sér að vinna við þessar ó­raun­veru­legu að­stæður í hjálpar­starfi er­lendis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steinunn Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á Landspítala.
Steinunn Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á Landspítala. Aðsend

Hjúkrunarfræðingur sem unnið hefur að opnun Covid-göngudeildar á Landspítala segir að sig hefði ekki órað fyrir því að þurfa að vinna hér heima á Íslandi við þær aðstæður sem nú eru uppi vegna kórónuveirunnar. Hún hafi frekar séð slíkt fyrir sér í hjálparstarfi á erlendum vettvangi og segir stöðuna óraunverulega.

Steinunn Ingvarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur síðan í janúar unnið að verkefnum tengdum kórónuveirunni á Landspítalanum. Síðastliðnar tvær vikur hefur hún stýrt opnun hinnar svokölluðu Covid-göngudeildar í Birkiborg, húsnæði Landspítala að Álandi 6 í Reykjavík, þar sem teknir eru inn sjúklingar sem metnir eru í hárri áhættu.

Steinunn ræddi stöðuna á Landspítalanum og vinnu sína tengdri veirunni í umræðuþættinum Bítinu í morgun. Hún sagði að sig hefði raunar ekki órað fyrir því að starfa við svona nokkuð hér heima á Íslandi.

„Þetta er stundum svolítið óraunverulegt allt saman og ég hef verið að segja við mína samstarfsfélaga, ég hef alltaf séð fyrir mér að starfa við eitthvað í líkingu við þetta en alltaf séð það fyrir mér á erlendum vettvangi, í einhvers konar hjálparstarfi. En mig hafði aldrei órað fyrir því að ég myndi taka þátt í svona verkefni á Íslandi, þetta er mjög sérstakt.“

Stofugangur á Covid-göngudeild Landspítala, sem Steinunn vann að því að koma á laggirnar.Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Steinunn lagði þó áherslu á að unnið væri gríðargott starf á spítalanum.

„Þessi samtakamáttur og eining sem er að skapast er algjörlega ótrúleg og það á líka við utan spítalans, allir birgjarnir okkar og samstarfsaðilar eru að standa sig alveg gríðarlega vel og það eru ótrúlegir hlutir sem eru að gerast á stuttum tíma. Og spítalinn er gjörbreyttur,“ sagði Steinunn.

Viðtalið við Steinunni og Berglindi Guðrúnu Chung hjúkrunarfræðing á Landspítalanum má sjá í heild í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×