Innlent

Sá frekar fyrir sér að vinna við þessar ó­raun­veru­legu að­stæður í hjálpar­starfi er­lendis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steinunn Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á Landspítala.
Steinunn Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á Landspítala. Aðsend

Hjúkrunarfræðingur sem unnið hefur að opnun Covid-göngudeildar á Landspítala segir að sig hefði ekki órað fyrir því að þurfa að vinna hér heima á Íslandi við þær aðstæður sem nú eru uppi vegna kórónuveirunnar. Hún hafi frekar séð slíkt fyrir sér í hjálparstarfi á erlendum vettvangi og segir stöðuna óraunverulega.

Steinunn Ingvarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur síðan í janúar unnið að verkefnum tengdum kórónuveirunni á Landspítalanum. Síðastliðnar tvær vikur hefur hún stýrt opnun hinnar svokölluðu Covid-göngudeildar í Birkiborg, húsnæði Landspítala að Álandi 6 í Reykjavík, þar sem teknir eru inn sjúklingar sem metnir eru í hárri áhættu.

Steinunn ræddi stöðuna á Landspítalanum og vinnu sína tengdri veirunni í umræðuþættinum Bítinu í morgun. Hún sagði að sig hefði raunar ekki órað fyrir því að starfa við svona nokkuð hér heima á Íslandi.

„Þetta er stundum svolítið óraunverulegt allt saman og ég hef verið að segja við mína samstarfsfélaga, ég hef alltaf séð fyrir mér að starfa við eitthvað í líkingu við þetta en alltaf séð það fyrir mér á erlendum vettvangi, í einhvers konar hjálparstarfi. En mig hafði aldrei órað fyrir því að ég myndi taka þátt í svona verkefni á Íslandi, þetta er mjög sérstakt.“

Stofugangur á Covid-göngudeild Landspítala, sem Steinunn vann að því að koma á laggirnar.Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Steinunn lagði þó áherslu á að unnið væri gríðargott starf á spítalanum.

„Þessi samtakamáttur og eining sem er að skapast er algjörlega ótrúleg og það á líka við utan spítalans, allir birgjarnir okkar og samstarfsaðilar eru að standa sig alveg gríðarlega vel og það eru ótrúlegir hlutir sem eru að gerast á stuttum tíma. Og spítalinn er gjörbreyttur,“ sagði Steinunn.

Viðtalið við Steinunni og Berglindi Guðrúnu Chung hjúkrunarfræðing á Landspítalanum má sjá í heild í spilaranum hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.