Lífið

Ævintýrapersónur Tulipop á forsíðu Kidscreen, tímarits um afþreyingu krakka

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir hjá Tulipop hafa átt góðu gengi að fagna.
Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir hjá Tulipop hafa átt góðu gengi að fagna.
Ævintýrapersónur íslenska hönnunarfyrirtækisins Tulipop prýða forsíðu nýjasta tölublaðs alþjóðlega tímaritsins Kidscreen sem kom út í vikunni. Í tölublaðinu er umfjöllun um þau teiknimyndaverkefni sem kynnt verða á sýningunni Cartoon Forum sem haldin verður í Frakklandi í september nk. og var Tulipop valið úr hópi 83 verkefna til að prýða forsíðu blaðsins. Tímaritið Kidscreen er leiðandi á alþjóðavísu í umfjöllun um afþreyingariðnað fyrir krakka.

Tulipop hóf á síðasta ári undirbúning að framleiðslu 52 þátta teiknimyndaseríu fyrir sjónvarp í samstarfi við reynslumikla aðila úr teiknimyndageiranum. Nú er í framleiðslu svokallaður pilot þáttur fyrir sjónvarpsseríuna. Tobi Wilson, einn helsti handritshöfundur hinnar vinsælu þáttaraðar The Amazing World of Gumball, skrifar handritið, hið virta framleiðslufyrirtæki Blink Industries í London er meðframleiðandi, og verðlaunaðir leikstjórar, Simon Cartwright og Nina Gantz, leikstýra.

Auk þess að vinna að undirbúningi fyrir framleiðslu teiknimyndaseríu fyrir sjónvarp þá er Tulipop með í framleiðslu sérstaka teiknimyndaseríu til dreifingar á netinu, en eins og tilkynnt var fyrr á árinu réð Tulipop fyrirtækið Wildbrain, sem er leiðandi í framleiðslu afþreyingarefnis fyrir vefmiðla, til að framleiða tíu þátta teiknimyndaseríu og stýra YouTube-rás Tulipop á heimsvísu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×