Innlent

Stór hluti nemenda og kennara í Bolungarvík í sóttkví eftir að smit greindist í bænum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Grunur er um fleiri smit í Bolungarvík.
Grunur er um fleiri smit í Bolungarvík. Vísir/Samúel Karl

Eitt tilfelli COVID-19 sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur hefur verið staðfest í Bolungarvík. Grunur er um fleiri. Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur ákveðið að fella niður kennslu á mið- og unglingastigi í Grunnskólanum í Bolungarvík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Þar segir að aðgerðirnar taki gildi frá og með morgundeginum og gildi þar til annað verður ákveðið.

„Allir nemendur og kennarar á þessum stigum skulu halda sig heima í úrvinnslusóttkví meðan sýni eru greind. Þeir sem eru í úrvinnslusóttkví skulu fara að sömu fyrirmælum og aðrir þeir sem eru í heimasóttkví,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að á þessu stigi málsins sé ekki talin þörf á algjöru samkomubanni í Bolungarvík. Hins vegar er tilefni til að hvetja fólk til að halda sig heima, halda samskiptafjarlægð, takmarka ferðir sínar og fylgja leiðbeiningum yfirvalda að öðru leyti. Unnið sé að smitrakningu og niðurstaðna úr sýnatökum er beðið. Nokkur fjöldi fólks sé þegar í sóttkví.

„Fólk sem finnur til einkenna á að halda sig heima og hafa samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í síma 450 4500. Tekin eru sýni alla virka daga á Ísafirði kl. 10 - 11, en fyrst þarf að fá samband við lækni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×