Innlent

Spá á­fram­haldandi stormi fyrir vestan og hríðar­veðri á Norður­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Á vef Veðurstofunnar segir að sé útlit fyrir talsverða úrkomu syðst á landinu og með suðausturströndinni.
Á vef Veðurstofunnar segir að sé útlit fyrir talsverða úrkomu syðst á landinu og með suðausturströndinni. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir áframhaldandi norðaustan stormi og hríð á norðvestanverðu landinu í dag. Við það bætist svo hríðarveður á Norður- og Norðausturlandi þegar líður á daginn. Vetrarfærð er um flest allt land.

Á vef Veðurstofunnar segir að einnig sé útlit fyrir talsverða úrkomu syðst á landinu og með suðausturströndinni.

„Það er því full ástæða til að skoða vel færð og veður áður en lagt er af stað í ferðalög, þó komið sé fram yfir miðjan mars. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu á morgun, og verður víða hæg breytileg átt og stökku él annað kvöld, en þá herðir einnig á frosti.

Útlit er fyrir nokkuð rólegt veður á fimmtudag en á föstudag gæti dregið til tíðina með lægð sem ber með sér hlýindi og mögulega rigningu á láglendi sunnan og vestanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum fram á kvöld, og gul viðvörun við Breiðafjörð og Ströndum og Norðurlandi vestra.

Viðvarnir eru í gildi fram á kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustan 8-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands og einnig syðst á landinu. Úrkomulaust annars staðar. Frost 0 til 5 stig. Hægari vindur um kvöldið og herðir á frosti.

Á fimmtudag: Hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Frost 1 til 10 stig. Sunnan 5-10 um kvöldið. Þykknar upp vestantil á landinu með dálitlum éljum við suðurströndina og minnkandi frosti.

Á föstudag: Gengur í sunnan 10-18 með snjókomu eða slyddu, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti um og yfir frostmarki. Suðvestanátt um kvöldið um kvöldið með éljum og kólnar.

Á laugardag: Suðvestan 8-15 og él, en léttskýjað norðaustan- og austanlands. Víða vægt frost.

Á sunnudag: Sunnan stormur með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu á láglendi. Úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hlýnar í veðri.

Á mánudag: Útlit fyrir suðvestanátt með slydduéljum eða éljum en lengst af úrkomlítið norðan og norðautsanlands. Hiti um frostmark en vægt frost norðaustantil.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.