Innlent

Sérfræðiaðstoð firrir stjórnvöld ekki ábyrgð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umsækjandinn gerði athugasemdir við umsögn trúnaðarlæknis, en sá svaraði ekki erindum umsækjandans.
Umsækjandinn gerði athugasemdir við umsögn trúnaðarlæknis, en sá svaraði ekki erindum umsækjandans. Vísir/Egill

Settur umboðsmaður Alþingis hefur beint því til mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar að taka mál til meðferðar að nýju, sökum þess að trúnaðarlæknir sem skilaði umsögn um umsókn manns um starfsnám svaraði ekki erindum mannsins.

Umsókn mannsins var hafnað á þeim forsendum að hann hefði tekið lyf við tilteknum sjúkdómi og uppfyllti því ekki kröfur um heilbrigði umsækjenda.

Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir að sérfræðimat trúnaðarlæknisins yrði ekki endurskoðað af mennta- og starfsþróunarsetrinu útilokaði það ekki að það gæti lagt fyrir lækninn að bæta úr tilteknum atriðum í tengslum við umsóknarferlið.

„Þar sem trúnaðarlæknirinn hafði ekki svarað erindum umsækjandans, áður en tekin var ákvörðun að synja umsókn hans á grundvelli neikvæðrar umsagnar læknisins, hefði ekki verið sýnt fram á að tryggt hefði verið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um heilsufar umsækjandans. Synjun umsóknarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög,“ segir í áliti umboðsmanns.

Umboðsamaður beindi því til setursins og ríkislögreglustjóra að athuga hvort taka þyrfti til skoðunar almennt verklag við meðferð umsókna um starfsnám hjá lögreglu.

„Þá voru gerðar athugasemdir við þau svör ríkislögreglustjóra til umboðsmanns að umboðsmaður skyldi leita skýringa á tilteknum atriðum hjá einkafyrirtækinu sem trúnaðarlæknirinn starfaði hjá í stað þess að ríkislögreglustjóri hlutaðist til um að afhenda þær upplýsingar og gögn sem óskað var eftir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×