Innlent

Breska afbrigðið greinst tvívegis á landamærunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.  Lögreglan

Breska afbrigði kórónuveirunnar hefur nú greinst tvívegis á landamærum Íslands. Afbrigðið hefur þó ekki greinst innanlands. 24 hafa greinst með veiruna innanlands síðustu fjóra daga, 7 þeirra voru utan sóttkvíar.

Ekki var hægt að komast í sýnatöku innanlands í gær vegna jólalokunar á öllum heilsugæslustöðvum á landinu. Í dag er þó hefðbundinn opnunartími í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu og hvetur sóttvarnalæknir alla sem finna fyrir einkennum að fara í sýnatöku.

Nýtt afbrigði veirunnar, sem oftast er kennt við Bretland, og er sagt mun meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar, greindist á landamærunum í desember. Það greindist svo aftur um 20. desember á landamærunum.

„Það greindist einn á landamærunum fyrir jól með breska afbrigðið. Það var þá tilfelli tvö í raun veru með breska afbrigðið. Sá viðkomandi er nú í einangrun,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Afbrigðið hefur þó ekki enn greinst innanlands.

„Það segir bara það að það hefur tekist að forða því með góðum aðgerðum,“ segir Þórólfur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist hafa rætt við sóttvarnalækni eftir að greint hafði verið frá veru ráðherrans í samkvæmi í Ásmundarsal sem lögreglan leysti upp á Þorláksmessu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær að mál ráðherrans væri afsakanlegt. Spurður hvort þetta gæti minnkað virðingu almennings fyrir reglunum segir sóttvarnalæknir erfitt að spá fyrir um það.

„Ég vona það svo sannarlega ekki. Þetta allt saman sýnir hvað við þurfum að passa okkur vel öllum stundum. Það er auðvelt fyrir hvern sem er að gleyma sér og við þurfum að hafa þetta ofarlega í huga alltaf. Ég held að þetta eigi frekar að vera áminning um að standa okkur betur,“ segir Þórólfur.

Verið er að dreifa bóluefni Pfizer til Evrópulanda í dag og á bólusetning að hefjast í álfunni á morgun. Bóluefnið kemur hingað til lands á mánudag og eiga bólusetningar að hefjast á þriðjudag. Þórólfur segir einn eða tvo daga til eða frá ekki skipta máli.

„Við þurfum bara að hafa plan þegar það kemur og að allt sé tilbúið. Þetta er bara fínt plan eins og það er núna,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Nýja afbrigðið greindist í Frakklandi

Nýja afbrigði kórónuveirunnar sem hefur náð að dreifa sér víða á Bretlandseyjum hefur greinst í Frakklandi. Þetta staðfesti franska heilbrigðisráðuneytið, en sá sem greindist er franskur ríkisborgari sem hafði komið frá Lundúnaborg þann 19. desember.

Málið óheppilegt en mikilvægt að horfa á stóru myndina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist vonsvikinn yfir því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi virt sóttvarnarreglur að vettugi. Hins vegar sé bólusetning handan við hornið og því sé mikilvægt að halda í samstöðuna svo hægt sé að komast í gegnum heimsfaraldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×