Innlent

Fleiri sækja um matar­að­stoð fyrir jólin í ár

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Herkastali Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut.
Herkastali Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Vísir/Sigurjón

Hjálpræðishernum í Reykjavík hafa borist um 600 umsóknir um mataraðstoð fyrir jólin og er það gríðarleg aukning frá síðasta ári, að því er fram kemur í tilkynningu á vef samtakanna. Á síðasta ári voru umsóknir í kring um 200 talsins.

„Um 470 einstaklingar og pör fá aðstoð frá Hjálpræðishernum í Reykjavík fyrir jólin, samanborið við 170 í desember í fyrra. Hjálpræðisherinn í Reykjavík aðstoðar einstaklinga og barnlaus pör á höfuðborgarsvæðinu en fjölskyldur geta sótt um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að aðstoðin sé í formi gjafakorta í Krónuverslunum.

Þá segir í tilkynningunni að það gefi auga leið að aukinn fjöldi umsókna kalli á aukin útgjöld af hálfu Hjálpræðishersins. Haft er eftir Hjördísi Kristinsdóttur, foringja í Hjálpræðishernum, að mörg fyrirtæki og samtök hafi styrkt starfið um hærri upphæð í ár en síðustu ár, til þess að mæta aukinni þörf í samfélaginu.

Breytingar á starfinu

Á næstu mánuðum muni velferðarstarf Hjálpræðishersins í Reykjavík breytast og minna verður um inneignarkort í matvöruverslanir.

„Við munum einbeita okkur að því að bjóða upp á heitan mat fimm sinnum í viku. Það eru aðallega einstaklingar sem leita til okkar en ekki fjölskyldur, svo það munar jafnvel enn meira um slíkan stuðning,“ er haft eftir Hjördísi.

Hjördís Kristinsdóttir er liðsforingi Hjálpræðishersins.Vísir/Sigurjón

Skráning í jólamat Hjálpræðishersins á aðfangadag er þá enn opin, en endanlegt fyrirkomulag hans liggur ekki fyrir, en fram kemur að útfærsla verði í samræmi við sóttvarnareglur.

Minni aukning á Akureyri

Þá kemur fram í annarri tilkynningu á vef Hjálpræðishersins að umsóknum um aðstoð yfir jólin hafi fjölgað um 30% á Akureyri og nágrenni.

„Eins og við mátti búast voru umsóknir um jólaaðstoð árið 2020 nokkuð fleiri en árin á undan. Umsóknir bárust frá um 400 heimilum á svæðinu, samanborið við 309 árið 2019. Þó hefur vel gengið að fjármagna aðstoðina, enda styðja fyrirtæki og samtök á svæðinu myndarlega við sjóðinn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×