Innlent

Yfirdeild MDE kveður upp dóm í Landsréttarmálinu á morgun

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu kveður upp dóm sinn í Landsréttarmálinu á morgun.
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu kveður upp dóm sinn í Landsréttarmálinu á morgun. vísir/epa

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu mun á morgun kveða upp dóm sinn í Landsréttarmálinu svokallaða, tíu mánuðum eftir að málflutningur fór fram í Strassbourg.

Óvissa er sögð ríkja um afdrif fleiri en þrjú hundruð dóma Landsréttar sem fjórir dómarar við réttinn hafa kveðið upp, staðfesti yfirdeild mannréttindadómstólsins dóm hans frá því í fyrra, sem var á þá leið að skipun dómara við Landsrétt hafi falið í sér brot gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði þá skipað fjóra dómara við réttinn sem ekki voru á lista yfir þá sem hæfnisnefnd hafði metið hæfasta. Alþingi samþykkti tillögu Sigríðar um skipan dómaranna í júní árið 2017. Við afgreiðslu málsins á Alþingi voru greidd atkvæði um listann í heild, listann yfir alla þá dómara sem Sigríður Andersen lagði til að yrðu skipaðir við réttinn, en ekki um hvern og einn fyrir sig. Dómur Mannréttindadómstólsins leiddi á endanum til afsagnar Sigríðar sem ráðherra.

Dómararnir fjórir tóku þátt í störfum nýja dómstigsins frá skipun þeirra 1. janúar árið 2018 og þar til dómur Mannréttindadómstólsins féll 13. mars í fyrra. Íslensk stjórnvöld óskuðu í framhaldi af þeim dómi, í maí 2019, eftir því að málið yrði tekið til endurskoðunar á vettvangi yfirdeildarinnar á þeim forsendum að málið teldist óvenjulegt og vekti upp veigamiklar spurningar um túlkun og framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu. Féllst dómurinn á þá beiðni í september í fyrra og fór málflutningur fram fyrir yfirdeildinni í febrúar á þessu ári.

Fyrir fram var gert ráð fyrir að niðurstaða yfirdeildar MDE myndi liggja fyrir tólf til átján mánuðum eftir málflutning. Sá dagur rennur upp á morgun, á fullveldisdaginn 1. desember, eða aðeins um tíu mánuðum eftir að málið var flutt í yfirdeild.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.