Sport

Allt í tómu COVID-19 tjóni hjá Baltimore Ravens

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamar Jackson er einn af mörgum leikmönnum Baltimore Ravens sem hafa smitast.
Lamar Jackson er einn af mörgum leikmönnum Baltimore Ravens sem hafa smitast. Getty/Maddie Meyer

Besti leikmaður NFL í fyrra er komin með kórónuveiruna og leikmenn Baltimore Ravens mega ekki mæta í vinnuna fyrr en eftir helgi.

Það er mikil óvissa í gangi hjá NFL-liðinu Baltimore Ravens því það lítur út fyrir að menn hafi misst stjórn á kórónuveirusmiti innan leikmannahópsins.

Leikstjórnandinn Lamar Jackson er síðasti leikmaðurinn hjá Baltimore Ravens til að fá kórónuveiruna og það eru ekki miklar líkur á því að leikur Baltimore Ravens og Pittsburgh Steelers geti farið fram um helgina.

Lamar Jackson var kosinn besti leikmaður NFL-deildarinnar í fyrra á fullu húsi og er stærsta stjarna NFL-deildarinnar til þessa sem greinist með kórónuveiruna. Hann þarf nú að fara í einangrun í tíu daga og gæti því einnig misst af leik á móti Dallas Cowboys á fimmtudaginn kemur.

Baltimore Ravens og Pittsburgh Steelers áttu að spila í nótt, kvöldleikinn eftirsótta á Þakkargjörðardeginum, en leiknum var frestað fram á sunnudaginn.

Eftir nýjustu smitin hjá Baltimore Ravens þá þarf félagið að loka öllu hjá sér fram yfir helgi og því nær engar líkur á því að leikurinn fari fram á sunnudaginn. Þjálfarinn John Harbaugh tilkynnti leikmönnum sínum að þær mættu ekki mæta fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn.

Forráðamenn Baltimore Ravens halda því fram að Lamar Jackson hafi smitast á leiknum á móti Tennessee Titans síðasta sunnudag en hann var þá í návígi við senterinn sem fékk jákvætt smitpróf á miðvikudaginn.

Hlaupararnir J.K. Dobbins og Mark Ingram II eru báðir með COVID-19 og alls hafa átta leikmenn liðsins smitast.

Það gekk allt upp hjá Baltimore Ravens í fyrra þangað til í úrslitakeppninni en árið í ár hefur ekki verið dans á rósum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×