Lífið

Einangrun og skömm sem fylgir klámnotkun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur opnar sig um tölvuleikja- og klámfíkn í samtali við Sölva Tryggvason.
Guðmundur opnar sig um tölvuleikja- og klámfíkn í samtali við Sölva Tryggvason.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari hefur leikið fjölda hlutverka bæði hér heima og erlendis en hann lék nýlega lykilhlutverk í tölvuleiknum Assassins Creed Valhalla, sem er á stærðargráðu sem fæstir gera sér grein fyrir. Hann er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.

„Þetta er svo ofboðslega stórt að maður gerir sér enga grein fyrir því. Ég skildi í raun ekkert hvað þetta var þegar ég fór í prufuna fyrir þetta hlutverk. En að fara inn í þennan heim og hitta allt þetta fólk sem er að vinna að þessu er í raun sturlun. Þegar þeir sem standa að tölvuleiknum gáfu út trailerinn fyrir leikinn fengu þeir 100 milljón áhorf á fyrsta sólarhringnum. Montreal, þar sem þetta var tekið upp, er ein af höfuðborgum tölvuleikjaiðnaðarins. Ég held að það hafi verið á bilinu sex til átta þúsund manns búin að vinna að þessu í þrjú ár þegar við komum inn. Þegar maður fer inn í höfuðstöðvarnar fer maður upp hæð eftir hæð eftir hæð og sér forritara eins langt og augað eigir. Það er rússneskt útibú sem gerir ekkert annað en að sjá um dýrin í leiknum,“ segir Guðmundur.

Það tók Guðmund svolítinn tíma að venjast því að leika þetta hlutverk, enda öðruvísi en að leika á sviði eða í bíómyndum.

Með hjálm og fjórar myndavélar

„Þetta minnti mig mest á að æfa fyrir það að leika á sviði. Þú ferð í þröngan galla og svo eru svona litlir ljósnæmir punktar úti um allt og svo ferðu inn í rými sem er eins og leikfimisalur og það eru myndavélar alls staðar sem eru að pikka upp þessa ljósnæmu punkta. Svo sérðu þig bara á skjá sem fjólubláa punkta sem hreyfast í leikmynd sem þú sérð á stórum skjá. Svo er maður með hjálm með fjórum myndavélum sem taka stanslaust upp, vegna þess að sá sem er að spila leikinn á alltaf að geta snúið sér hvert sem er. Þannig að þetta er ekki eins og þegar það er verið að taka upp bíómynd og það koma pásur. Að því leiti er þetta líkara því að vera á sviði, af því að þú ert alltaf ,,on”. En þetta var mjög skrýtið fyrst. Að vera með mótleikarann á móti sér og við báðir með hjálm í einhverjum göllum, en svo venst þetta og var mjög skemmtilegt.“

Klippa: Einangrun og skömm sem fylgir klámnotkun

Guðmundur Ingi talar í þættinum líka um tímabil þar sem hann var í basli með sjálfan sig vegna klám- og tölvuleikjafíknar. Hann segir nauðsynlegt að opna þessa umræðu, enda sé klámfíkn orðin að alvöru vandamáli hjá stórum hópi ungra karlmanna.

„Ég held að þér geti liðið mun betur eftir að hafa fengið þér mikið vín eða kókaín, heldur en ef þú hefur legið í að horfa á klám. Svo býr þetta líka til rosalegan frammistöðukvíða og maður heyrir að hluti af ungum drengjum treysti sér hreinlega ekki í alvöru kynlíf af því þeir hafa horft á of mikið af klámi,“ segir Guðmundur og heldur áfram.

„Sem betur fer eignaðist ég ekki tölvu fyrr en 1998. Af því að þá missti ég dálítið tökin. Ekki bara klám, heldur fer ég líka að spila mikið tölvuleiki. Þetta var árið sem ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum. Ég á nokkur ár strax eftir útskrift þar sem ég var ekki á góðri leið. Það gekk svo langt að ég hringdi mig inn veikan í leikhúsið af því að ég var ekki búinn með einhvern tölvuleik. Hjá mér byrjar þetta mjög saklaust. Ég var í sveit og það var alltaf mikið af vinnumönnum og klámblöð undir rúmum og auðvitað kom fyrir að maður var einn heima að leika og sá einhver blöð undir dýnum þegar maður var að leika.“

Hann segist til að mynda hafa lesið upphátt upp úr þessum blöðum fyrir lesblindan frænda sinn þegar þeir vorum 10-12 ára gamlir.

Þorði ekki að segja neinum frá

„Svo man ég að fyrst var keypt eitt vídeó-tæki á Reykholtsstaðinn sem svo var lagður kapall frá í öll húsin í kring, svo voru menn að stelast til að setja í hryllingsmyndir og klámmyndir á næturnar. En svo þegar vídeó-tækin fóru að koma inn á heimilin almennt gerist það svo að við vinirnir fundum alltaf einhverjar spólur hér og þar og fórum að stelast til að horfa á klámmyndir. En ég man að þegar strákarnir vildu svo hittast og horfa á þetta saman þegar einhver var einn heima vildi ég ekki vera með í því, en vildi svo vera einn í mínu horni að gera það sama.“

Guðmundur segir að það sem hafi sett hann í vandræði hafi verið einangrunarhegðun, sem er mjög oft það sem býr til fíknivanda.

„Það sem síðan býr til vandann er að þetta er allt eitthvað sem er verið að gera í felum og maður þorði ekki að segja neinum frá. Það sem býr til þessa skömm er að maður er alltaf að gera þetta í einrúmi. Svo fer maður út í lífið með þá hugmynd að konur séu annars vegar klámmyndadrottningar og hins vegar guðum líkar verur eins og mæðurnar og ömmurnar í sveitinni sem sáu um heimilin. Og þetta er ekki góð blanda ef maður gerir sér síðan ekki grein fyrir að raunveruleikinn er aðeins öðruvísi. Þessi klámvæðing í bland við skömmina og slæmar hugmyndir um karlmennsku ertu kominn með hræðilega blöndu fyrir unga stráka."

Í þættinum ræða Sölvi Og Guðmundur um leiklistina, stöðu ungra karlmanna í samfélaginu, fíknisjúkdóma, hvað það er sem einkennir okkur sem þjóð og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×