Enski boltinn

Vill að Fernandes og Jorginho verði bannað að taka „hoppvíti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes í hoppinu sínu.
Bruno Fernandes í hoppinu sínu. getty/Catherine Ivill

Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal og enska landsliðsins, vill að sú vítaspyrnutækni sem Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, og Jorginho, leikmaður Chelsea, beita verði bönnuð.

Fernandes og Jorginho eru með afar sérstaka aðferð við að taka víti en rétt áður en þeir koma að boltanum hoppa þeir áður en þeir láta vaða. Fernandes tók tvö „hoppvíti“ í leik United og West Brom í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Það fyrra varði Sam Johnstone, markvörður West Brom, en endurtaka þurfti spyrnuna þar sem hann var kominn út af marklínunni. Fernandes skoraði svo úr seinna vítinu.

Wright segir að þessi vítaspyrnutækni sé ósanngjörn fyrir markverði og vill láta banna hana.

„Þetta er erfitt fyrir markverðina,“ sagði Wright í Match of the Day á BBC á laugardaginn. 

„Þeir sem taka vítin mega hoppa upp og gera hitt og þetta en markverðirnir mega ekki fara með fótinn af línunni. Það ætti að banna leikmönnum að hoppa. Þeir ættu bara að hlaupa að boltanum og skjóta. Það er ekki sanngjarnt að þeir fái að hreyfa sig en ekki markverðirnir.“

Fernandes klúðraði einnig vítum gegn Newcastle United og Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu. Líkt og gegn West Brom fékk hann að taka vítið gegn PSG aftur og skoraði í seinna skiptið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.