Lífið

Lára ánægð með að Foden sé kominn aftur í landsliðið: „Ég samgleðst honum innilega“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lára Clausen segir að það hafi verið tekið rosalega hart á drengjunum eftir atvikið á Hótel Sögu og hafi þeir ekki fengið sanngjarna meðferð í fjölmiðlum. 
Lára Clausen segir að það hafi verið tekið rosalega hart á drengjunum eftir atvikið á Hótel Sögu og hafi þeir ekki fengið sanngjarna meðferð í fjölmiðlum.  Myndir/instagram/getty

„Ég samgleðst honum innilega,“ segir Lára Clausen en hún varð nánast heimsfræg eftir að hafa farið í heimsókn til landsliðsmannsins Phil Foden á Hótel Sögu í september. Þá var enska landsliðið í knattspyrnu hér á landi til að keppa við íslenska liðið í Þjóðadeildinni.

Þær Lára Clausen og Nadía Sif Líndal heimsóttu þá Phil Foden og Mason Greenwood og með því brutu leikmennirnir sóttvarnarreglur og ferðuðust ekki með landsliðinu í næsta leik gegn Danmörku. 

Foden og Greenwood voru til umfjöllunar í öllum breskum miðlum og fengu drengirnir að finna fyrir því.

„Það er bara gott að ferillinn sé kominn aftur á uppleið hjá honum og maður hafi ekki eyðilagt meira fyrir honum. Mér fannst tekið alveg svakalega hart á þeim og mjög ósanngjörn umfjöllun. Við fengum alveg að finna fyrir þessu líka en það var tekið harðara á þeim.“

Phil Foden fór á kostum í landsleiknum gegn Íslandi í vikunni og skoraði hann tvö mörk og lagði upp eitt í 4-0 sigri.

„Það var mjög erfitt að horfa upp á þá missa eitthvað sem þeir voru búnir að vinna svo mikið fyrir. Þeir voru kallaðir heimskri og ég veit ekki hvað og það fannst mér ömurlegt að lesa,“ segir Lára og bætir við að það hafi aldrei verið planið hjá þeim að málið myndi rata í fjölmiðla.

„Ég horfði ekki á leikinn í vikunni en fékk rosalega mikið af snöppum frá leiknum og hann stóð sig greinilega vel,“ segir Lára.

Hún lenti sjálf í fjölmiðlafárinu í september og segir það hafa verið erfið reynsla.

„Maður var allt í einu komin í alla miðla nánast í heiminum og það var erfitt. Ég á ömmu sem hét líka Lára Clausen og mamma mín var að reyna finna upplýsingar um hana á netinu um daginn og það komu bara upp endalausar fréttir um mig, meira segja í kínverskum miðlum.“

Eftir allt fjölmiðlafárið er Lára komin með yfir þrjátíu þúsund fylgjendur á Instagram.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×