Innlent

Breyta á fyrirkomulagi leghálsskimana um áramótin

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að breytingar verði á fyrirkomulagi leghálsskimana frá áramótum.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að breytingar verði á fyrirkomulagi leghálsskimana frá áramótum. VÍSIR/SIGURJÓN

Breyta á fyrirkomulagi leghálsskimana um áramótin. Gerðar verða veirumælingar á konum í stað hefðbundinnar frumusýnaskoðunar sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins telur að muni auka gæðin.

Til stendur að flytja skimun fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin.

„Það lítur út fyrir að við munum færast út í að mæla HPV-veiru í leghálsstrokinu sem þýður að við erum að gá hvort að það hafi orðið veirusýking og ef svo er þá er farið út í nánari skoðun með frumuskoðun,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Í dag er þessu öfugt farið, fyrst er gerð frumurannsókn og í sumum tilvikum gerð HPV-mæling. HPV-veiran er ein helsta orsök frumubreytinga í leghálsi.

„Með því að taka yfir veirumælingarnar frekar en frumusýnaskoðun þá aukum við næmnina, við munum greina meira og þá missum við minna af tilvikum sem þarf að fylgja eftir,“ segir Óskar. 

Frá og með áramótum fái konur boðun í skimun á heilsugæslustöð. Nú sé verið að skoða hvar rannsaka eigi sýnin en þrír staðir komi til greina: Landspítalinn og tvær stórar rannsóknarstofur í Danmörku og í Svíþjóð.

„Því stærri sem rannsóknarstofurnar eru þá væntir maður þess að gæðamálin séu trygg en það er líka mikilvægt að viðhalda rannsóknum á Íslandi þannig þetta er ekkert auðvelt að ákveða,“ segir Óskar og bætir við að rannsóknarstofan Danmörku sjái til að mynda um rannsókn á sýnum frá Grænlandi og Færeyjum sem hafi reynst mjög vel. 

Óskar segir að ákvörðun muni liggja fyrir á næstu dögum.

Þá hefur það færst í aukana erlendis að konur taki sýnin sjálfar að heiman. Rannsóknir hafi staðfest að það sé jafn gott til veirumælinga. Þetta kemur til greina hér á landi en þó ekki um ármaótin.

„Ef það er jafn gott þá af hverju ekki?,“ spyr hann og bætir við að þessu fylgi meiri hagkvæmni. „En fyrst og fremst auknar líkur á því að fleiri mæti í skimun því ef við fáum aukna mætingu þá aukum við líkurnar á því að konur deyi síður úr leghálskrabbameini.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.