Innlent

Lektorinn tapaði máli sínu gegn HR fyrir Landsrétti

Kjartan Kjartansson skrifar
Kristinn Sigurjónsson (t.h.) með Jóni Steinar Gunnlaugssyni, lögmanni sínum.
Kristinn Sigurjónsson (t.h.) með Jóni Steinar Gunnlaugssyni, lögmanni sínum. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hafnaði kröfu Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við Háskólann í Reykjavík, á hendur skólanum í dag. HR sagði Kristni upp vegna ummæla sem hann lét falla um konur í lokuðum Facebook-hóp í tengslum við MeToo-umræðuna fyrir tveimur árum.

Kristinn krafðist miskabóta upp á hátt í sextíu milljónir króna frá HR vegna uppsagnarinnar í október árið 2018. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði skólann af kröfunni í ágúst í fyrra.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, staðfestir við Vísi að Landsréttur hafi hafnað kröfu hans í dag. Hann segir niðurstöðuna umhugsunarverða í ljósi þess að Kristinn hafi verið rekinn fyrir að láta í ljós skoðun sína á máli sem var til mikillar umræðu í samfélaginu á lokaðri vefsíðu.

Kristinn starfaði sem lektor við tækni- og verkfræðideild HR en var sagt upp störfum vegna ummæla hans um konur í lokuðum Facebook-hóp, „Karlmennskuspjallið“, í október árið 2018.

Ummælin voru á þá leið að konur troði sér inn á vinnustaði og eyðileggðu þá því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. Sagði Kristinn að hann teldi vert að skoða möguleika á aðgreindum vinnustöðum kvenna og karla.

Dómurinn í máli Kristins hefur enn ekki verið birtur á vef Landsréttar. Jón Steinar segir að rétturinn hafi ekki fallist á að í uppsögn Kristins hafi falist ólögmæt meingerð gegn honum og því hafi skólinn verið sýknaður af kröfunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.