Innlent

Ekkert bendir til þess að barnið hafi lent í slysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Barnið var fyrst flutt með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur á föstudag.
Barnið var fyrst flutt með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur á föstudag. Vísir/vilhelm

Ekki er talið að barn sem flutt var með sjúkraflugi frá Akureyri til Reykjavíkur á föstudag hafi lent í slysi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Málið er nú í höndum lækna, sem kanna hvort barnið sé með undirliggjandi veikindi sem hafi valdið því að það missti meðvitund.

Valur Magnússon, lögreglufulltrúi rannsóknardeildar lögreglunnar á Norðurlandi eystra, segir í samtali við Vísi að tilkynning til lögreglu um málið á föstudag hafi hljóðað upp á meðvitundarlaust barn á leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit. Barnið var fyrst flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi á sjúkrahús í Reykjavík.

Niðurstaða rannsóknar lögreglu er sú að engin leiktæki eða annað í umhverfi barnsins geti hafa valdið því að það missti meðvitund.

„Staðan er þannig að við teljum ekki að um slys sé að ræða, ekkert á leikskólanum er talið hafa orsakað það sem þarna gerist. Þetta er ekki slys út af falli eða höggi eða neinu svoleiðis. Eftir stendur að við vitum ekki nákvæmlega hvað orsakar þetta ástand hjá barninu, það er til rannsóknar hjá læknum fyrir sunnan,“ segir Valur.

Þannig sé verið að kanna hvort undirliggjandi eða óútskýrð veikindi barnsins hafi verið að verki þegar það missti meðvitund á föstudag.

Valur segir að barnið sé nú komið til meðvitundar og virðist á batavegi. Málið sé í höndum lækna og lögregla muni líklega ekki hafa frekari aðkomu að því.


Tengdar fréttir

Barnið á batavegi eftir slys í Hörgársveit

Barnið sem flutt var á sjúkrahús í Reykjavík eftir slys á leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit á föstudag er á batavegi og virðist ekki hafa slasast alvarlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×