Varað er við austan- og norðaustan hvassviðri eða stormi á landinu sunnan- og suðaustanverðu í dag. Gular viðvaranir verða í gildi fyrir landshlutana langt fram á kvöld. Vindstyrkur gæti náð allt að 35 metrum á sekúndu í hviðum við fjöll í Öræfum.
Á Suðurausturlandi tók viðvörunin gildi klukkan 5:00 í morgun en varir hún til klukkan 21:00, að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Þar er gert ráð fyrir 18-25 metrum á sekúndu, hvössustu við Öræfajökul, og enn snarpari hviðum undir fjöllum. Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi nú klukkan 9:00 og gildir til 23:00. Spáð er 18-23 metrum á sekúndu í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Staðbundið gætu hviður farið yfir 30 metra á sekúndu.
Gert er ráð fyrir að rigning fylgi veðrinu austanlands en þurrt verður að kalla á Suður- og Vesturlandi. Á morgun er spáð norðaustan 10-15 metrum á sekúndu suðaustan- og austanlands, rigningu eða slyddu norðanlands en bjartviðri sunnantil. Hiti verður á bilinu ein til átta gráður, hlýjast syðst.