Innlent

Snjó­flóða­safni í Flat­eyrar­höfn myndi stafa hætta af snjó­flóðum

Atli Ísleifsson skrifar
Starfshópurinn sæi fyrir sér safnið svona. Varðskipið Ægir myndi þá vera við bryggju í Flateyrarhöfn.
Starfshópurinn sæi fyrir sér safnið svona. Varðskipið Ægir myndi þá vera við bryggju í Flateyrarhöfn. Starfshópur um Snjóflóðasafn á Flateyri

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar telur að Snjóflóðasafni um borð í varðskipinu Ægi, sem staðsett yrði í Flateyrarhöfn, myndi stafa hætta af snjóflóðum. Auk þess sé hafnarpláss við bryggjuna á Flateyri of takmarkað til að hægt sé að koma varðskipinu þar fyrir.

Þetta kemur fram í umsögn hafnarstjórnar og segir frá í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Var þar verið að fjallað um hugmyndir starfshóps um uppbyggingu Snjóflóðasafns á Flateyri, undir forystu Eyþórs Jóvinssonar, þar sem óskað er samtals við sveitarfélagið um að finna varðskipinu Ægi staðsetningu á Flateyri fyrir Snjóflóðasafn. Starfshópurinn óskaði þar meðal annars eftir tímabundna eða varanlega eftirgjöf af hafnargjöldum og/eða öðrum kostnaði.

Eyþór Jóvinsson fer fyrir starfshópnum en hann rekur Gömlu bókabúðina á Flateyri auk þess sem hann leiðir reglulegar snjóflóðagöngur um þorpið.

Landhelgisgæslan tekið vel í hugmyndina

Vísir fjallaði um hugmyndirnar um miðjan mánuðinn þar sem kom fram að hugmyndir starfshópsins gengju einnig út á að nýta plássið um borð í Ægi undir gisti- og veitingaþjónustu. 

Sagði að Landhelgisgæslan hefði tekið vel í hugmyndina enda hafi skipið ekki verið í notkun undanfarin ár og glæsilegu hlutverki þess innan Landhelgisgæslunnar lokið. Skipið er nú við bryggju í Reykjavíkurhöfn.

Bæjarstjóra falið að vinna málið áfram

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vísaði beiðni starfshópsins sem hafnarstjórnar sem hefur nú skilað umsögn sinni. Þar segir að hafnarstjórn fagni „áhugaverðri hugmynd“, en telji að hafnarpláss við bryggjuna á Flateyri sé of takmarkað til að hægt sé að koma varðskipinu fyrir þar.

„Þá er höfnin enn óvarin fyrir snjóflóðum, vinna við nýtt hættumat stendur enn yfir og því ekki tímabært að taka ákvarðanir um framkvæmdir við höfnina.

Auk þess telur hafnarstjórn að ekki sé hægt að fara í framkvæmdir sem til þyrfti til að koma varðskipinu fyrir án fjárhagslegrar aðkomu annarra opinberra aðila,“ segir í umsögninni.

Bæjarráð hefur þó falið Birgi Gunnarssyni, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, að vinna málið áfram.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.