Innlent

Boðar áframhaldandi hertar aðgerðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alþingisfundur á tímum Covid
Alþingisfundur á tímum Covid Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráhðerra vonar að hækkandi hlutfall fólks sem greinist hér á landi í sóttkví séu merki um að hertar aðgerðir séu að skila árangri. Um leið berist fréttir af andláti vegna Covid-19 sem minni á mikilvægi aðgerða.

„Í gær greindust 67 manns með kórónuveirusmit en þar af voru 50 í sóttkví. Vonandi er þetta merki um að þær hertu aðgerðir sem hófust fyrir 10 dögum séu að skila àrangri,“ segir Katrín í færslu á Facebook.

Katrín ræddi stöðuna í samtali við fréttastofu í Tjarnargötu í hádeginu.

„En við fáum líka þær sorglegu frèttir að einn hafi nú látist af völdum kórónuveirusmits á Landspítalanum í þessari bylgju faraldursins.“

Aldrei hafi verið mikilvægara að þjóðin taki öll höndum saman í þessu verkefni, þ.e. að ná stjórn á faraldrinum, ná smitunum niður og làgmarka þannig skaðann fyrir land og þjóð.

„Við getum vænst þess að heilbrigðisràðherra muni framlengja hertar aðgerðir í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis þannig að þær standi næstu tvær til þrjár vikur. Gerum öll okkar besta, fylgjum reglum og pössum okkur eins vel og við getum - ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir okkur öll.“

Minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem hann skilaði til heilbrigðisráðherra í gær, hefur ekki verið birt. Þórólfur sagði á upplýsingafundinum í gær að hann boðaði litlar breytingra á aðgerðum núna. Í minnisblaðinu væri aðallega leitast við að skýra hluti sem valdið hafa misskilningi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×