Innlent

Minnir á að 200 gætu dáið ef veiran fengi að leika lausum hala

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra.  Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að í umræðunni um nauðsyn þess að grípa til harðra aðgerða í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn vantaði að ræða hvaða kynni að gerast ef veiran fengi að leika lausum hala um samfélagið.

Þórólfur ræddi þetta einnig í viðtali við fréttastofu fyrir helgi. 

Eins og staðan er í dag hefur 1 til 2 prósent sýkst af veirunni. Þórólfur benti á að ef slakað yrði á aðgerðum gæti veiran náð tíu prósent útbreiðslu á fjórum til sex vikum.

Sé miðað við reynslu síðasta vetra og frá því veiran lét aftur á sér kræla síðsumars þá myndu 1.200 til 2.300 manns þurfa að leggjast inn á spítala ef tíu prósent þjóðarinnar myndi smitast. 110 til 600 þyrftu á gjörgæslumeðferð að halda, 90 til 350 þyrftu að fara í öndunarvél og allt að 200 gætu látist.

Þórólfur sagði að svo útbreiddur faraldur myndi að öllum líkindum valda miklu álagi á heilbrigðiskerfið og bitna á öðrum sjúklingahópum. Bað hann þá sem ræddu nauðsyn hertra aðgerða að taka það með inn í jöfnuna þegar það er gert.

Sagði hann að með miklum tilslökunum gætu Íslendingar séð mun meira en 10 prósenta útbreiðslu og að menn gætu rétt ímyndað sér hvaða afleiðingar það myndi hafa ef til stæði að ná hjarðónæmi, eða 60 prósent útbreiðslu, á stuttum tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.