Bíó og sjónvarp

Skuggahverfið - Ný íslensk kvikmynd frumsýnd í kvöld á RIFF

Heiðar Sumarliðason skrifar
Íslenska kvikmyndin Skuggahverfið verður frumsýnd í kvöld.
Íslenska kvikmyndin Skuggahverfið verður frumsýnd í kvöld.

Kvikmyndin Skuggahverfið verður frumsýnd í kvöld klukkan 18:00 á RIFF í Bíó Paradís, eftir hana verður svo spurt og svarað með kvikmyndagerðarfólkinu. Listrænt séð er myndin íslenskt-pólskt samstarfsverkefni því Íslendingurinn Jón Einarsson Gústafsson skrifar og leikstýrir ásamt hinni pólsku Karolinu Lewicka. Myndin, sem er mest megnis á ensku, er fjámögnuð af íslenskum og kanadískum aðilum.

Hún fjallar um unga konu sem erfir hús ömmu sinnar sem hún hitti aldrei, í borg sem hún hefur aldrei komið til. Í trássi við vilja móður sinnar leggur hún í ferðalag til að öðlast skilning á sársauka fortíðarinnar, en með þeirri ákvörðun veldur hún uppnámi og róti sem hún kemst ekki lifandi frá nema með aðstoð látinna forfeðra og -mæðra.

Vísir heyrði í Jóni í tilefni af frumsýningardeginum og forvitnaðist um bakgrunn hans og tilurð myndinnar.

„Ég lærði kvikmyndagerð í Manchester og leikstjórn fyrir leikhús og kvikmyndir í California Institute of the Arts fyrir mörgum árum. Þegar ég útskrifaðist þaðan var lítið að gerast á Íslandi svo ég flutti til Kanada og fór að vinna við kvikmyndagerð.“

Þar bjó Jón í átta ár og gerði heimildamyndir fyrir CBC, tónlistarmyndbönd fyrir vinsælar hljómsveitir og setti upp þrjár leiksýningar. Einnig kom hann á fót kvikmyndahátíð í Gimli sem nýverið var haldin í tuttugasta sinn. 

Það var röð tilviljana sem dró hann aftur heim til Íslands. „Árið 2004 gerði bresk vinkona mín kvikmynd með Gerard Butler og ég kynntist honum í framhaldi af því. Í sömu viku hringdi Sturla Gunnarsson, leikstjóri og vinur minn, í mig og spurði álits á leikurum fyrir stórmyndina Bjólfskviðu sem hann var að undirbúa að taka á Íslandi. Það leiddi til þess að ég kynnti hann fyrir Butler, sem endaði svo í aðalhlutverki myndarinnar.“ 

Úr Bjólfskviðu Sturla Gunnarssonar frá árinu 2005.

Sturla fékk svo Jón í hlutverk eins af hermönnum Bjólfs, en einnig til að mynda það sem gerðist bak við tjöldin. 

„Tökurnar á Bjólfskviðu voru mjög erfiðar, t.a.m. lentum við í miklu óveðri þar sem öll leikmyndin fauk út á haf einn daginn, svo misstum við átta bíla út af fljúgandi grjóti. Útkoman úr upptökum mínum varð heimildarmyndin Reiði guðanna, Wrath of Gods, sem sýnd var á kvikmyndahátíðum um allan heim og ég var í heilt ár að ferðast um heiminn með myndina. Maður græðir ekki mikið á heimildarmyndum svo ég tók að mér að klippa þátt sem hét Kompás.“ 

Þar fylgdist Jón með Jóhannesi Kr. Kristjánssyni kafa ofan í skrítinn heim sem virtist vera að myndast í Skuggahverfinu í Reykjavík. Þar voru í gangi átök um gömul hús og fjárfestar beittu ýmsum brögðum til að komast yfir húsin. 

„Ég ætlaði upphaflega að gera heimildarmynd um þetta en það var enginn tilbúinn að segja frá, svo við ákváðum að nota efniviðinn í skáldskap. Myndin Skuggahverfið sprettur upp úr því. Samstarfskona mín í myndinni heitir Karolina Lewicka og ég kynntist henni í Póllandi fyrir mörgum árum þegar ég fór að heimsækja vin minn sem var í kvikmyndaskólanum í Lodz. Pólverjar hafa sterka kvikmyndamenningu og Karolina er einstaklega hæfileikarík. Karolina kom með kvenlegu hliðina í handritið og það var rökrétt framhald að við leikstýrðum myndinni saman.“ 

Nældu sér í Hollywood-stjörnu

Jón og Karolina höfðu litla fjármuni milli handanna til að gera myndina en náðu þó að næla sér í þekkta kvikmyndastjörnu í eitt hlutverkið. Það var hin vestur-íslenska aðalleikkona myndarinnar, Brittany Bristow, sem kom þeim í samband við velska leikarann John Rhys-Davies, sem er þekktastur fyrir að leika í Lord of the Rings og Indiana Jones-myndunum. Hann tók að sér hlutverk Einars.

Aðrir aðalleikarar í myndinni eru Kolbeinn Arnbjörnsson, Inga María Eyjólfsdóttir, ásamt Rúnari Frey Gíslasyni, Bryndísi Petru Bragadóttur, Erla Ruth Harðardóttur og Valgeiri Skagfjörð. 

Velski leikarinn John Rhys-Davies fer með eitt af aðalhlutverkum myndarinnar.

„Það gerðust magnaðir hlutir við tökur á þessari mynd og til dæmis var útigangskona sem bjó í hjólhýsi við hliðina á tökustaðnum. Hún átti það til að ganga í gegnum settið og henni var nákvæmlega sama hvort við værum að mynda eða ekki. Þegar tökum lauk gat ég ekki hætt að hugsa um hana fyrr en ég áttaði mig á því að amman sem átti að vera dáin í sögunni ætti að sjást í myndinni. Við fengum svo þjóðargersemina, hana Eddu Björgvinsdóttur til að leika ömmuna og allt í einu var sagan fullkomin. Edda er þannig manneskja að hún gerir allt betra sem hún kemur nálægt.“

Jón og Karolina hafa þegar hafið að leggja drög að sínu næsta verkefni en það er sagan Leikfélagið, sem þau hafa verið að skrifa í nokkur ár. Sagan er um ungan leikstjóra sem fær vinnu við að leikstýra áhugaleikhóp í litlum bæ úti á landi en leiksýningin er stórslys frá fyrsta degi. Þessi saga er byggð á hlutum sem Jón lenti í þegar hann útskrifaðist sem leikstjóri fyrir ansi mörgum árum.

Skuggahverfið verður svo tekin til almennra sýninga á Íslandi í lok október.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.