Innlent

Kalla inn grímur sem veita litla sem enga vernd

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd af vef Neytendastofu sýnir umrædda grímu og umbúðir.
Mynd af vef Neytendastofu sýnir umrædda grímu og umbúðir.

Neytendastofa vekur á athygli á innköllun á andlitsgrímum sem meðal annars hafa verið seldar í verslunum Krambúðarinnar, Nettó, Kjörbúðarinnar og Iceland. Ekki er talið að grímurnar hafi mikið sóttvarnalegt notagildi.

Í tilkynningu frá Neytendastofu kemur fram að ekki sé vitað hver framleiðandi vörunnar en. Fyrir ofan strikamerki umbúðanna standi þó „3 M 100 maskar.“

Þá stendur „Disposable face masks two ply 100 pieces“ framan á umbúðunum. Grímurnar voru seldar í stykkjatali.

Neytendastofu bárust ábendingar um að grímurnar væru ekki öruggar til notkunar fyrir neytendur sem vörn. Eftir skoðun á grímunum sjálfum og umbúðum lagði stofnunin strax tímabundið sölubann á grímurnar. Í framhaldi af því ákvað Samkaup hf., rekstraraðili framangreindra verslana, að innkalla grímurnar. Ástæðan fyrir innkölluninni er að andlitsgríman veitir neytendum litla sem enga vörn, að því er fram kemur í tilkynningu Neytendastofu.

„Samkaup er ekki innflutningsaðili þessara gríma og hafa þær verið seldar á fleiri sölustöðum, meðal annars í Lyfju, Lyf og heilsu, Apótekaranum og Apótekinu. Neytendastofa hvetur alla sem hafa keypt andlitsgrímurnar að vera ekki að nota þær heldur að skila þeim á þann sölustað sem varan var keypt eða henda þeim,“ segir jafnframt í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.