Innlent

Tíðindin komu Bjarna á óvart en Áslaug tjáir sig ekki um einstök mál

Birgir Olgeirsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagðist að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun ekki tjá sig um einstök mál.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagðist að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun ekki tjá sig um einstök mál. Vísir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vildi ekki tjá sig um mál Khedr-fjölskyldunnar að loknum löngum ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Fjölskyldunni var veitt hæli af mannúðarástæðum í gær eftir að hafa verið í felum í rúma viku hér á landi.

„Þetta ferli er byggt á kerfi og regluverki sem eru settar um þessi mál. Það voru engar pólitískar ákvarðanir teknar um þessi mál,“ sagði Áslaug Arna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við fréttastofu að loknum fundi að tíðindin í gær hefðu komið honum á óvart.

„Mér sýnist málið hafa ráðist af tæknilegum atriðum en þetta er ekki minn málaflokkur, hefur ekki allar upplýsingar til að úttala mig um það,“ sagði Bjarni.

„En mér finnst allt um þetta mál bera þess merki að kerfið okkar hafi brugðist, kerfið er ekki að ráða við að halda utan um svona mál þannig að bæði málsmeðferðin og endanleg niðurstaða sé gegnsæ og skiljanleg og byggi á skýrum reglum.“

Hann sagði að honum sýndist mikil þörf á því að skoða allt regluverk þessa málaflokks, þannig að hægt sé að huga að mannúð en ekki síður skilvirkni kerfisins.

Áslaug var spurð hvort hún væri sammála því að kerfið hefði brugðist.

„Kerfið hvetur allavega til skoðunar á ýmsum þáttum laganna, þessi málsmeðferð er ekki boðleg,“ sagði Áslaug.

Aðspurð hvort hvaða persónulegu skoðun hún hefði á því að fjölskyldan hefði fengið hæli sagði Áslaug Arna:

„Sem fyrr tjái ég mig ekki um niðurstöðu einstakra mála, þetta hvetur til þess að kerfið sé skoðað.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.