Innlent

Aðalsteinn endurvekur vöffluhefðina

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, bauð upp á vöfflur við undirritun samninganna í dag.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, bauð upp á vöfflur við undirritun samninganna í dag. Vísir/Sigurjón

Vöffluilmur var í Karphúsinu í dag í fyrsta skipti í langan tíma. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari stóð vaktina og bakaði vöfflur í tilefni þess að samninganefndir Landssambands lögreglumanna og ríkissins skrifuðu undir kjarasamninga eftir langar viðræður.

Vöfflubakstur var órjúfanlegur þáttur undirritunar kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara í tugi ára. Fyrir um tveimur árum var hefðin hins vegar rofin og sagði Bryndís Hlöðversdóttir, þáverandi ríkissáttasemjari, að starfskraftar embættisins væru betur nýttir með öðrum hætti en vöfflubakstri.

Aðalsteinn, sem tók við embættinu í byrjun þessa árs, telur hins vegar vera við hæfi að ljúka samningaviðræðum á jákvæðum nótum.

„Mér finnst þetta falleg og góð hefð. Ég held að það sé mjög vel viðeigandi að setjast niður í vöfflur eftir erfiða samningalotu. Svo kemur huggulegur ilmur í húsið og gleði í loftið," sagði Aðalsteinn í dag.

Vöfflujárnið verði því sennilega áfram til taks. „Ef menn standa sig, vinna vel saman og klára samninga fá þeir vöfflur. Kannski verð ég með vegan vöfflur líka," segir Aðalsteinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.