Innlent

„Alvarlegt brot“ á siðareglum að nafngreina Andreu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot af frétt Fótbolta.net.
Skjáskot af frétt Fótbolta.net. Skjáskot

Framkvæmdastjóri og ritstjórar Fótbolta.net brutu siðareglur Blaðamannafélags Íslands með því að nafngreina Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur leikmann Breiðabliks í frétt um að hún hefði greinst með kórónuveiruna. Brotið telst alvarlegt að mati siðanefndar.

Andrea kom heim frá Bandaríkjunum 17. júní, spilaði leik með liði sínu daginn eftir og annan 23. júní. Eftir síðari leikinn greindist hún með kórónuveiruna en hafði verið einkennalaus fram að því. Þann 25. júní, tveimur dögum eftir síðari leikinn, birti Fótbolti.net frétt þar sem fram kemur að leikmaður Breiðabliks hafi greinst með veiruna og Íslandsmótið í knattspyrnu í uppnámi af þeim sökum. Andrea var nafngreind í fréttinni og mynd af henni einnig birt.

Fleiri miðlar fjölluðu um málið í kjölfarið og nafngreindu Andreu með vísan til fréttar Fótbolta.net, þar á meðal Vísir. Fram kemur í úrskurði siðanefndar að kvartað hafi verið til Fótbolta.net strax sama dag og fréttin birtist og þess krafist að nafn Andreu og mynd yrðu strax afmáð úr fréttinni. Ekki hafi verið orðið við því af hálfu Fótbolta.net.

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net.Vísir/vilhelm

Málið var kært til siðanefndar fyrir hönd Andreu í júlí. Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net og sá sem skrifaður er fyrir umræddri frétt, var kærður persónulega, auk þess sem Magnús Már Einarsson og Elvar Geir Magnússon ritstjórar voru kærðir fyrir hönd miðilsins.

Í úrskurði sínum segir siðanefnd að hún telji meginatriði málsins vera þau að nafn Andreu var birt „í heimildarleysi“ ásamt mynd af henni og frá því greint að hún hafi verið sú smitaða. Ekki verði séð að „sérstök nauðsyn hafi borið til“ að upplýsa um nafn hennar og birta mynd af henni í tengslum við fréttaflutninginn.

Það sé álit siðanefndar að þremenningarnir sem stóðu að fréttinni hafi brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins með birtingu hennar. Þá teljist brotið alvarlegt. Nefndin segir jafnframt að ekki séu ákvæði í siðareglum um að önnur sjónarmið eigi að gilda ef viðfangsefni fréttar teljist opinber persóna. Sjónarmið sem að því lúta eigi þannig ekki við í málinu en verði þó metin blaðamönnunum til málsbóta við ákvörðun um eðli brotsins.

Nafngreiningin kom mjög illa við Andreu. Hún lýsti því í samtali við Mbl í sumar að hún hefði brotnað saman þegar hún sá nafn sitt og mynd á forsíðu Fótbolta.net.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×