Innlent

Sundurlyndi innan ríkisstjórnar komi ekki á óvart

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sést hér í forgrunni. Fyrir aftan hana standa Svandís Svavarsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sést hér í forgrunni. Fyrir aftan hana standa Svandís Svavarsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.  Vísir/Vilhelm

Stjórnmálafræðingur segir það ekki veikja ríkisstjórnarsamstarfið þó ráðherrar séu ekki sammála um hvernig meðhöndla eigi hælisleitendur. Nú sé komið að kosningavetri og þá fari að sjást skarpari skil á milli flokka.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er úr röðum Sjálfstæðisflokksins og sagði að málsmeðferðartími egypsku fjölskyldunnar, sem vísa á úr landi á miðvikudag, sé innan marka svo unnt sé að neita henni um vernd. Hámarkstími málsmeðferðar eru 16 mánuðir. Fjölskyldan hefur dvalið hér í 25 mánuði og vill Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem er formaður Vinstri grænna, fremur skoða heildardvalartíma umsækjenda en ekki málsmeðferðartíma.

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir stefnu þessara flokka á öndverðu meiði í hælis- og innflytjendamálum en stjórnarsamstarfið þó ekki í bráðri hættu. Augljóst sé þó að ráðherrarnir horfi til baklands flokkanna þegar kemur að þessum málum. Bakland Vinstri grænna kalli ákaft eftir aukinni vernd hælisleitenda á meðan bakland Sjálfstæðisflokksins sé íhaldssamara.

„Þannig að þessi misklíð innan ríkisstjórnarinnar núna, þó hún birtist með mildum hætti, kemur alls ekki á óvart,“ segir Eiríkur Bergmann.

Hann telur ekki óeðlilegt að ráðherrar skiptist á skoðunum.

„Sér í lagi sökum þess hvernig ríkisstjórnin er samsett. Þetta fólk er ekkert sérstaklega samstíga í þeim málaflokki sem um er að ræða. Svo megum við ekki gleyma því að við erum að sigla inn í kosningavetur og við getum bara átt von á því að það skerpist skilin milli stjórnarflokkanna, bara eins og á milli stjórnmálaflokka í landinu almennt.“

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Eirík Bergmann í heild sinni. 

Klippa: Eiríkur Bergmann ræðir stjórnarsamstarfið


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×