Innlent

Storm- og rigningar­við­varanir á norð­vestur­hluta landsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gulu viðvaranir dagsins.
Gulu viðvaranir dagsins. Skjáskot/veðurstofan

Búast má við norðaustanhvassviðri eða -stormi á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og Faxaflóa í dag. Gular veðurviðvaranir hafa ýmist þegar tekið gildi á svæðunum eða taka gildi í dag. Þá verður talsverð eða mikil rigning á norðanverðum Ströndum í dag og fram á nótt. Gul viðvörun vegna rigninga er í gildi fram á morgundaginn á svæðinu.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar að allmikil lægð sé nú skammt suður af Reykjanesskaga sem þokist austur. Vegna hennar mun ganga á með norðaustanhvassviðri og síðar stormi norðvestantil á landinu. Mun hægari vindur verður í öðrum landshlutum. Þá verður úrkoma í minna lagi, utan þess að mikið mun líklega rigna á Ströndum.

Búast má við vindi um 20 m/s á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og Faxaflóa. Snarpar vindhviður við fjöll, allt að 30 m/s, gætu verið varasamar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Þá gæti rigningarveður á norðanverðum ströndum valdið vatnavöxtum í ám og lækjum, sem auka hættu á flóðum og skriðuföllum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.

Þá dregur talsvert úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt. Fremur hæg norðlæg átt á morgun en austlægari syðst og úrkomulítið. Svipað veður á sunnudag. Milt veður yfir daginn en frystir sums staðar á Norðurlandi annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum, en austlægari syðst. Rigning á norðanverðu landinu, en stöku skúrir syðra. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á sunnudag og mánudag:

Austlæg átt, 5-13 m/s og dálítil rigning S-lands og með norðurströndinni, en annars úrkomulítið. Hiti 2 til 10 stig, svalast NA-lands.

Á þriðjudag:

Hæg suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum, en stöku skúrir og hlýnar heldur.

Á miðvikudag:

Vaxandi sunnanátt og þykknar upp og sums staðar væta við V-ströndina um kvöldið. Milt í veðri.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu og hlýindum, en þurrviðri á N-landi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.