Innlent

109 þúsund fjár slátrað á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Haustslátrun hófst hjá Sláturfélagi á Suðurland í morgun þegar um átta hundruð lömbum var slátrað. Engir atvinnuslátrar frá Nýja Sjálandi koma í sláturtíðina eins og undan farin ár vegna kórónuveirunnar.

Sláturfélag Suðurlands reiknar með að slátra um 109 þúsund fjár þetta haustið en sláturtíðin mun standa yfir í tvo mánuði. Um 160 starfsmenn hafa verið ráðnir til að vinna í sláturtíðinni, sem tekur um tvo mánuði.

„Við mönnum sláturtíðina bæði með fólki, sem er búsett hér á Íslandi og erlendis frá. Það leit ekkert vel út á köflum að ráða í öll þessi störf, en það hefur ræst vel úr því, við erum búin að fá nóg af fólki alla vega. Útlendingarnir eru ekki komnir til starfa enn þá, þeir eru þó komnir til landsins en þeir þurfa að fara í seinni sýnatöku í dag og á morgun og koma væntanlega til vinnu á mánudag,“ segir Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Atvinnuslátrar frá Nýja Sjálandi hafa síðustu ár komið sérstaklega til landsins til að vinna við sláturtíðina en þeir koma ekki í ár vegna kórónuveirunnar. Benedikt segir að sláturhúsið sé lokað öllum nema starfsfólki og bændur fá ekki að fylgja fé sínu til slátrunar eins og alltaf hefur verið leyft.

En hvað með afurðaverð til bænda, af hverju er það ekki komið?

„Það er bara erfitt að ákveða það þegar markaðir eru eins og þeir eru en það fer að koma.“

Benedikt segir að sláturtíðin sé alltaf einn af skemmtilegustu tímunum hjá Sláturfélaginu.

„Já, það er bara spenningur og tilhlökkun með góða tíð, sem vonandi verður, vonandi að veðrið verði líka gott alla tíðina,“ segir Benedikt.

Um 109 þúsund fjár verður slátrað í sláturhúsinu á Selfossi á næstu tveimur mánuðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×