Hótel Laki er staðsett fimm kílómetrum sunnan við Kirkjubæjarklaustur, í þriggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Reykjavík. Á hótelinu er 80 herbergi. Hótel Laki er fjölskyldu fyrirtæki þar sem Eva Björk Harðardóttir er hótelstjóri. Hún segir að boðið til starfsfólks Landspítalans og þríeykisins sé vegna kórónuveirunnar, fólkið eigið skilið gott frí og slökun fyrir frábært starf, Hótel Laki vilji leggja þar sitt af mörkum.
„Við sitjum uppi með hálf tómt hótel eins og flestir ferðaþjónustuaðilar á landinu og ákváðum að reyna að horfa á þetta sem tækifæri og þakka einhverjum fyrir vel unnin störf. Þá fórum við að hugsa hvað við gætum gert og þá datt okkur í hug vegna mikils álags starfsfólks Landspítalans og þríeykinu okkar fræga að bjóða frí herbergi fyrir þennan hóp í sumar,“ segir Eva Björk.
„Ég veit að það eru í margir í sömu stöðu og við að hafa eitthvað að bjóða og geta þannig þakkað fyrir. Við erum í þessari aðstöðu núna og datt í hug að í staðinn fyrir að sitja uppi með tómt hótel og einhvern fastan kostnað að bjóða það sem við getum og við ákváðum að taka Landspítalann og þríeykið út fyrir sviga og þakka fyrir með þessu móti,“ bætir Eva Björk við.

„Þetta er kannski skref í þá átt að biðja fólk um að nýta þjónustuna úti á landi og stíga þannig í ístaðið með þessari stóru atvinnugrein, sem á undir högg að sækja. Ég á von að boði okkar verði vel tekið og að starfsfólkið og makar þeirra nýti sér tilboðið og heimsæki Suðurland. Það eru nú þegar farnar að koma einhverjar hringingar og við erum farin að taka niður einhverjar bókanir. Ég vil bara hvetja fólk til að heyra í okkur, það er nóg af lausum herbergjum,“ segir Eva Björk.
