Lífið

Fögnuðu samningnum á táknmáli vegna kórónuveirunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Samninganefndirnar Eflingar og Reykjavíkurborgar fagna undirritun í nótt.
Samninganefndirnar Eflingar og Reykjavíkurborgar fagna undirritun í nótt. Vísir/jkj
Þrátt fyrir að Efling og Reykjavíkurborg hafi náð að landa kjarasamningi eftir harðvítugar deilur síðastliðinn mánuði heyrðist ekkert lófatak frá Karphúsinu í nótt. Að sama skapi barst enginn vöffluilmur úr eldhúsi Ríkissáttasemjara og engin voru handaböndin.

Fagn samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar var þess í stað á táknmáli. Þær lyftu upp höndum og hristu þær, ekki ósvipað og má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Þetta fagn var innleitt hjá embætti Ríkissáttasemjara á föstudag, þegar almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Hugmyndin er að takmarka alla óþarfa snertingu við samningaborðið, eins og handabönd og lófatak.

Þessi háttur hefur því verið hafður á við undirritun nýrra kjarasamninga um helgina, til að mynda fögnuðu samninganefndir með þessum hætti aðfaranótt mánudags þegar tókst að afstýra verkföllum félagsmanna BSRB og Sameykis.

Sjá einnig: Samið um allt að 112 þúsund króna hækkun

Þar að auki ákváðu starfsmenn Ríkissáttasemjara að loka húsnæðinu í Borgartúni öðrum en þeim sem áttu sæti við samningaborðið. Allt var þetta gert til að sporna við frekari dreifingu veirunnar.

Hvað vöfflurnar varðar þá hurfu þær úr Karphúsinu í maí í fyrra, eftir að hafa verið fastur liður við undirritun kjarasamninga í rúmlega 20.

Þáverandi ríkissáttasemjari, Bryndís Hlöðversdóttir, sagðist vilja nýta starfskrafta starfsmanna með öðrum hætti heldur að láta þá hanga yfir vöfflujárninu langt fram á nótt.


Tengdar fréttir

Hætt að baka vöfflur við undirritun kjarasamninga

Vöfflubakstur við undirritun kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara heyrir sögunni til. Ríkissáttasemjari segist vilja nýta starfskrafta starfsmanna með öðrum hætti. Hefðin hefur verið við lýði í rúm 20 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×